„Okkar tími er kominn“

Andrea Jóhanna Ólafsdóttir, formaður Samtaka heimilanna, afhenti Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, …
Andrea Jóhanna Ólafsdóttir, formaður Samtaka heimilanna, afhenti Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, undirskriftir undir áskorun um afnám verðtryggingar. mbl.is/Golli

„Mótmælin fóru vel fram og við erum ánægð með það hversu margir mættu,“ segir Andrea Jóhanna Ólafsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna um mótmælin á Austurvelli í morgun. „Vissulega var eggjum og matvælum kastað, en þetta eru allt saman mjúkir hlutir sem eru algerlega hættulausir og ég veit ekki til þess að neinn hafi skaðast.“

Hagsmunasamtök heimilanna stóðu að mótmælunum í morgun ásamt hópnum Samstaða Íslendinga 1. október 2011. Mótmælin voru víða auglýst; á Facebook, í dagblöðum, útvarpi og sjónvarpi.

„Ég get ekki með nokkru móti áætlað hversu margir komu, en Austurvöllur var fullur,“ segir Andrea.

Mótmælafundurinn stendur til klukkan þrjú í dag og Andrea bindur vonir við að hann beri árangur. „Við viljum sjá að þingið fari í það að leiðrétta stökkbreytt lán heimilanna strax og afnema verðtryggingu. Heimilin hafa setið á hakanum í þrjú ár, þau eru grunnstoð landsins og við viljum sjá aðgerðir strax. Við erum búin að bíða lengi, okkar tími er kominn núna. Tími Jóhönnu er liðinn.“

Mannfjöldinn á Austurvelli í dag.
Mannfjöldinn á Austurvelli í dag. mbl.is/Júlíus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert