Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði við þingsetningu Alþingis, að þingið sem nú tekur til starfa verði að skapa nýja sátt við þjóðina.
„Um þessar mundir eru merki þess að brestir séu í brúnni milli þings og þjóðar," sagði Ólafur Ragnar. „Það sýnir umræðan hér í salnum og utan hans, hin hörðu mótmæli sem voru í fyrra við þingsetningu og einnig fjöldinn sem staðið hefur á Austurvelli á þessum morgni og sendir til þingsins sín skilaboð. Að þúsundir telji sig ár eftir ár knúna til andófs við setningu þingsins er hættumerki sem okkur öllum ber að taka alvarlega, áminning um að endurreisn í kjölfar bankahrunsins felst ekki aðeins í aðgerðum á sviði efnahagslífs og fjármála. Hún þarf líka að rækta þann lýðræðisjarðveg þar sem rætur Alþingis hafa legið."
Forsetinn fór síðan ýtarlega yfir það frumvarp að nýrri stjórnarskrá, sem stjórnlagaráð skilaði í sumar. Sagði hann að tillögurnar fælu tvímælalaust í sér mun valdameiri forseta en áður.
„Slíkt eru tvímælalaust veruleg tíðindi en vandi Alþingis í meðferð málsins mun þó mótast að nokkru af því að forsetakosningar eiga að fara fram á sumri komanda. Tími til ákvarðana er þess vegna takmarkaður og brýnt er að afstaða Alþingis til þessara tillagna liggi fyrir í tæka tíð. Annars bæri Alþingi ábyrgð á því að þjóðin vissi ekki hver staða forsetans yrði í stjórnskipun landsins þegar hún gengur að kjörborðinu. Forsetakosningarnar yrðu þá algjör óvissuferð," sagði Ólafur Ragnar.