„Illa vegið að launafólki“

Höskuldur Þórhallsson alþingismaður Framsóknarflokksins.
Höskuldur Þórhallsson alþingismaður Framsóknarflokksins. mbl.is

„Það sem ég hef mestar áhyggjur af er að illa er vegið að launafólki. Í frumvarpinu eru faldar skattahækkanir eins og lækkun á skattþrepi, sem mun koma við heimilin í landinu, ekki síst millistéttina,“ segir Höskuldur Þórhallsson, alþingismaður Framsóknarflokksins,  um fjárlagafrumvarpið. Höskuldur situr í fjárlaganefnd.

Höskuldur segist einnig hafa miklar áhyggjur af niðurskurði í heilbrigðiskerfinu. „Það stendur til dæmis til að skera niður um 9% á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga sem er nánast rothögg fyrir þá stofnun.“

Þingmaðurinn bendir á að ríkisstjórnin hafi ekki náð þeim markmiðum sem hún setti sér í júní 2009, varðandi hagvöxt og að ná verðbólgunni niður. „Það hefur allt klikkað og nú er ríkisstjórnin í rauninni farin að setja ný markmið; nú á aðlögunin að verða hægari. Atvinnuleysið er gríðarlega hátt og bæði Seðlabankinn og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn eru komnir fram með verri spár og horfur en spáin sem fjárlagafrumvarpið byggist á.“

Höskuldur segir að hlutfall óbeinna skatta hafi hækkað gríðarlega. „Það er mikið áhyggjuefni að mínu mati. Tekjuskatturinn er einn stærsti pósturinn og svo tryggingargjaldið; þetta tvennt hefur minnkað samanborið við þriðja þáttinn sem eru óbeinu skattarnir. Sú breyting bitnar mjög á venjulegu fólki.“ Hann nefnir einnig aukna skatta á fjármálafyrirtækin. „Ég held það sé ansi mikil hætta á því að þeim hækkunum verði ýtt út í verðlagið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert