Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri, vonast eftir að kornakrar hafi ekki farið mjög illa í rokinu sem gekk yfir landið um helgina. Kornskurður stendur nú sem hæst, en hann er seinni í ár en síðustu ár vegna kulda og þurrka í sumar. Veðrið síðustu daga hefur tafið kornskurð.
Mjög mikið er búið að rigna síðustu tvo daga og hvasst hefur verið á Suður- og Vesturlandi. Kornöxin geta farið illa í roki á haustin, en Ólafur segir að rok og rigning sé skárri en hvassviðri í þurru veðri. Hann vonar að þetta hafi sloppið. Hann segir þó að kornið hafi víða lagst undan veðrinu.
Spáð er skúrum fram í miðja vikuna en síðan á að snúa í norðanátt. Ólafur segir að þá muni bændur ganga í að ná korninu inn.
Kornrækt hefur aukist síðustu ár og var uppskeran í fyrra um 16.000 tonn, sem er svipað og árið 2009. Jónatan Hermannsson jarðræktarráðunautur segir að þetta sumar hafi ekki verið eins gott kornræktarsumar og í fyrra. Uppskeran sé hvergi mjög góð, en víða sæmileg. Hann segir að talsvert sé um að bændur hafi ákveðið að skera ekki kornið heldur slá akrana og rúlla uppskeruna og nota hana í grænfóður fyrir skepnur. Þetta eigi einkum við bændur á Norðurlandi. Staðan sé betri á Suðurlandi og sæmileg á Vesturlandi.