Verið að þjarma að almenningi

Kristján Þór Júlíusson segir of miklar vonir bundnar við nýgerða …
Kristján Þór Júlíusson segir of miklar vonir bundnar við nýgerða kjarasamninga. mbl.is/Ómar

„Það er rangt að segja að ekki sé verið að þjarma að almenningi með fjárlagafrumvarpinu,“ segir Kristján Þór Júlíusson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd Alþingis. Hann segir frumvarpið byggja á ótraustum grunni.

„Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu á hagvöxturinn að byggja á vaxandi einkaneyslu og fjárfestingu og sú einkaneysla sem þarf að vera í gangi á væntanlega að byggja á þeim kjarasamningum sem voru gerðir í sumar. Þeir setja gríðarlega mikið mark sitt á fjárlög næsta árs að því er lítur að kostnaði. Þetta á sinn þátt í því að aðhaldsmarkmið ríkisstjórnarinnar ganga ekki eftir svo menn eru að ýta á undan sér vandanum og gefa eftir,“ segir Kristján Þór.

„Framgangur fjárlaganna á að byggja á mati ríkisstjórnarinnar á hagspá Hagstofunnar frá því í júlí varðandi hagvöxt, verðbólgu og fleira en maður verður að hafa fyrirvara á þeirri spá í ljósi reynslunnar frá því í fyrra.“

Engin innistæða fyrir kjarasamningunum í sumar

Kristján segir of miklar vonir bundnar við kjarasamningana frá því í sumar.

„Ég hef verulegar efasemdir um þetta einfaldlega vegna þess að það var engin innistæða fyrir þeim kjarasamningum sem gerðir voru. Þeir voru gerðir út á framtíðarhagnað og væntingar sem ekki hafa gengið eftir,“ segir Kristján og bendir á viðbrögð ASÍ og SA.

Kristján segir einnig að með frumvarpinu aukist skattlagning og það sé rangt hjá ríkisstjórninni að skattaaukningin beinist ekki gegn einstaklingum.

„Það er verið að leggja á álögur á almenning til dæmis með útvarpsgjaldi og gjaldi í framkvæmdasjóð aldraðra sem er nefskattur. Það er verið að leggja skatt á launagreiðslur fyrirtækja og að sjálfsögðu koma skattar á fyrirtæki niður á starfsmönnum þeirra,“ segir Kristján. Þá muni aðhald í rekstri ríkisfyrirtækja fækka störfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert