„Við erum mjög döpur“

Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Þingeyjarsýslu.
Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Þingeyjarsýslu. mbl.is

„Við erum mjög döpur yfir þessum fjárlögum,“ segir Jón Helgi Björnsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga. „Það er búið að lækka kostnað hér um 24% á síðustu þremur árum og þessi niðurskurður kemur ofan í það. það er engin fita lengur í stofnunni sem hægt er að skera af þannig að þetta kemur beint niður á þjónustunni sem við erum að veita,“ segir Jón Helgi við Fréttavef Morgunblaðsins.

Jón Helgi vill ekki nefna eitthvað öðru fremur. „Nei, þetta mun koma við stofnunina alla; þjónusta sjúkrahússins er öll undir. Ég held það verði mjög erfitt að halda henni óbreyttri og mér sýnist því að eitthvað af þjónustunni verði að flytja inn á Akureyri.“

Forstjórinn segist vonast til þess að frumvarpið verði endurskoðað því sér finnist allt of hart fram gengið.

„Þegar þessar tillögur bætast við niðurskurð síðustu ár er niðurskurðurinn í raun 33%, og ef við tökum gengisáhrif inn í dæmið má segja að niðurskurðurinn sé um 36%.“ Það segir hann gríðarlega mikið því erfitt sé að veita þjónusta í jafn dreifðri byggð og stofnunin sinnir.

„Við Þingeyingar eru líka mjög ósáttir við að á sama tíma og við erum beðnir um að vera tilbúnir undir stórfellda atvinnuuppbyggingu, og höfum samning við stjórnvöld þar að lútandi, skuli hið opinbera skera mikilvægustu opinberu þjónustuna í Þingeyjarsýslu meira niður en annars staðar. Okkur finnst því engin skynsemi í þessum tillögum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert