„Kannski ættum við að hefja hvert einasta þing hér eftir á því, að berja í tunnur saman og segja upphátt hvað það er sem gerir okkur reið og reyna síðan að leysa það," sagði Guðmundur Steingrímsson, óháður þingmaður, í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í kvöld.
Guðmundur velti því fyrir sér hvers vegna hann gæti staðið utan við Alþingishúsið og barið í tunnu. Sagðist hann upplifa á eigin skinni, að það fjármálakerfi, sem væri nú að rísa úr rústum þess gamla, væri ekkert öðruvísi. „Svo ég held að ég gæti barið í tunnu út af því og kannski extra fast út af bágborinni skuldastöðu míns sjálfs," sagði Guðmundur.
Hann sagðist myndu berja í tunnu út af stjórnarskrármálinu og Evrópusambandsmálinu, íslenska gjaldmiðlinum og mikilvægi grænnar atvinnustefnu.
Þá sagðist hann myndu berja í tunnu út af erlendum fjárfestingum. „Mér finnst eins og það ætti að ríkja samhljómur um það, að við viljum auka erlenda fjárfestingu en samt fer þingheimur á óskildgreindan hátt á límingunum ef einhver útlendingur brosir til okkar," sagði Guðmundur.