Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði í stefnuræðu sinni á Alþingi í kvöld, að það væri samfélagsleg skylda bankanna að skila gríðarmiklum hagnaði undanfarinna missera aftur til samfélagsins með einhverjum hætti, m.a. með því að lækka vexti.
„Það segir sig sjálft að það verður ekki þolað að þessi mikli hagnaður verði nýttur til þess eins að greiða hluthöfunum arð eða hækka laun æðstu stjórnenda úr takt við launaþróun annarra, eins og áður gerðist. Bankarnir, sem árin og jafnvel áratugina fyrir hrun, sögðu sig úr siðferðilegu sambandi við þjóðina hljóta nú að hugsa sinn gang í þessum efnum," sagði Jóhanna.
Hún sagði í ræðunni, að stjórnvöld þurfi að setja fram heildstæða stefnu um erlenda fjárfestingu en stefnumörkun á þessu sviði sé í undirbúningi og verði kynnt Alþingi sem þingsályktunartillaga á þessu þingi.
„Fjármögnun er einnig mikilvægt skilyrði fjárfestinga. Ýmislegt hefur áunnist á því sviði. Endurreisn fjármálakerfisins er langt komin, aðgengi hefur fengist að erlendum lánamörkuðum, vextir hafa lækkað, skuldatryggingaálag hefur lækkað, skuldaaðlögun heimila og fyrirtækja er vel á veg komin og stöðugleiki ríkir í hagkerfinu. Það vekur því athygli að þrátt fyrir mjög rúma lausafjárstöðu bankanna er þar lítil sem engin útlánaaukning til fjárfestinga.
Á sama tíma birtast ótrúlegar tölur um þann ofurhagnað sem bankarnir hafa skilað á undanförnum misserum, m.a. vegna hárra útlánsvaxta. Blasir ekki við að bankarnir þurfa að lækka vexti sína enn frekar til að koma fjárfestingum af stað? Háir vextir bankanna eru uppskrift að lítilli fjárfestingu og efnahagslegri stöðnun.
Það er ekkert launungarmál að ríkisstjórnin telur að bankarnir þurfi að leggja meira af mörkum til samfélagsins og uppgjör þeirra sýna að þeir eru svo sannarlega aflögufærir. Á sama tíma og heimilin, fyrirtækin og velferðarþjónustan búa við samdrátt í kjölfar hruns fjármálakerfisins er það samfélagsleg skylda bankanna að skila þessum mikla hagnaði aftur til samfélagsins með einhverjum hætti," sagði Jóhanna.
Forsætisráðherra sagði, að lykillinn að hagvexti væri ekki opinberar framkvæmdir eða verkefni, þótt þau gegni mikilvægu hlutverki við núverandi aðstæður. Lykilatriði sé að setja kraft í innlendar jafnt sem erlendar fjárfestingar, einkum í útflutningsgreinum, og skapa skilyrði til þess að svo geti orðið.
Sagði Jóhanna, að hagvöxtur hér á landi sé áætlaður um 3% í ár og margt bendi til að horfur um hagvöxt á næsta ári séu vænlegri en ýmsar spár sýni.