„Bati er genginn í garð og hann á að geta haldið áfram," sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, í umræðum um stefnuræðu ríkisstjórnarinnar í kvöld. „Það eru óveðursskýin utan landsteinanna sem eru eitt helsta áhyggjuefni okkar í dag."
Steingrímur sagði, að í einhverju landi hefðu aðilar vinnumarkaðarins, sanngjarnir fjölmiðlar og fræðimenn, jafnvel stjórnarandstaðan, fagnað slíkum tímamótum," sagði Steingrímur. Sagðist hann vilja leyfa sér að halda því fram, að málflutningur stjórnarandstöðu og margra aðila í þjóðfélaginu væri trúverðugri ef þeir viðurkenndu þann árangur sem hefði náðst en beindu spjótum sínum að og gagnrýndu hitt sem of hægt hefði gengið.
„Þessi ömurlegi svartagallssöngur þar sem hvergi sést til sólar og ekki bara sumt er ómögulegt heldur allt er ómögulegt, fer nú æ meir að missa marks eftir því sem batamerkin koma í ljós," sagði Steingrímur.
Hann sagði að það væri ánægjulegt að heyra menn tala um gróða bankanna og vísaði þar til ræðu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í kvöld. Það myndi þá ekki standa á Sjálfstæðisflokknum að hjálpa ríkisstjórninni að koma fjársýsluskatti í gengum Alþingi.
Steingrímur sagði, að þótt viðsnúningur hefði orðið í efnahagslífinu og bati væri hafinn væri mikið verk óunnið við að endurheimta trúnað og traust í samfélaginu.
„Slíkt kemur ekki af sjálfu sér en reynum þá að hjálpast að við það sem þjóð. Við getum gert betur í stjórnmálunum og hér í þingsalnum. Hagsmunaaðilar geta gert betur, fjölmiðlarnir geta gert betur og forseti lýðveldisins getur gert betur. Við skulum leggja áherslu á það sem sameinar okkur og sameinast um það mikilvæga verkefni að klára þetta og fara með Ísland út úr kreppunni," sagði Steingrímur.
Hann sagði að Íslendingum geti einum tekist þetta og þeir geti einir klúðrað því „en það ætlum við ekki að gera. Og við þá menn, sem bera dag hvern fóður í sundurlyndisfjandann segi ég: Látið það vera, hafið ykkur á burtu ef þið hafið ekkert þarfara fram að færa," sagði Steingrímur.
Hann óskaði landsmönnum síðan gleðilegan vetur, „hann verður miklu betri en ætla mætti af upphafi þingsins.