Draga þarf úr þjónustu Landspítala

Björn Zoëga, forstjóri Landspítala.
Björn Zoëga, forstjóri Landspítala.

Draga þarf úr þjónustu og fækka rúmum ef Landspítalanum verður gert að skera niður í rekstri um 630 milljónir á næsta ári. Þetta segir Björn Zoëga, forstjóri Landspítala, í pistli á heimasíðu spítalans.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs sem lagt var fram á Alþingi á laugardag er Landspítalanum gert að skera niður um 630 milljónir króna. Björn segir þetta lýsandi fyrir þá erfiðu stöðu sem ríkisfjármálin séu í.

„Þetta eru auðvitað vonbrigði en við vonum að þessi krafa breytist og minnki töluvert í meðförum Alþingis. Við höfum áður borið slíkar vonir í brjósti en þær hafa því miður sjaldnast ræst. Það væri því ábyrgðarleysi að fara ekki að vinna að útfærslu á þessum niðurskurði en hans verður vart á flestum sviðum spítalans. Við munum þurfa að minnka stoðþjónustusvið spítalans og þjappa klínískri starfsemi okkar enn meira saman. Þetta mun leiða til minna framboðs á þjónustu og þá um leið fækkunar rúma.

Við höldum áfram þessari vinnu og segjum ykkur frá útfærslu þessara tillagna fyrir lok októbermánaðar,“ segir Björn.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert