Fagnar tillögu um Palestínu

Steingrímur J. Sigfússon á Alþingi í kvöld.
Steingrímur J. Sigfússon á Alþingi í kvöld. mbl.is/Ómar

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld, að hann fagnaði sérstaklega þingsályktunartillögu Össurar Skarphéðinssyni, utanríkisráðherra, um að sjálfstæði Palestínu verði viðurkennt.

„Í okkar raunum og búsorgum hér uppi á Íslandi er okkur hollt, að hugsa til þess sem fólk annarstaðar á hnettinum þarf að búa við. Það er löngu löngu kominn tími til þess, að alþjóðasamfélagið þvoi þann smánarblett af samvisku sinni hvernig farið var með Palestínumenn og að þeir fái nú, í krafti sjálfsákvörðunarréttar síns, að stofna sjálfstætt ríki í sínu eigin föðurlandi og þó fyrr hefði verið," sagði Steingrímur.

Þingsályktunartillagan, sem lögð var fram á Alþingi í kvöld, gerir ráð fyrir því að ríkisstjórnin  viðurkenni Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið árið 1967.

Segir í greinargerð að viðurkenning á Palestínu sem sjálfstæðu og fullvalda ríki muni ekki breyta því ein og sér að landið verður áfram hernumið. Viðurkenning sé hins vegar ein leið til að stuðla að betra jafnvægi í samskiptum Palestínumanna og Ísraela án þess að lögmæti Ísraelsríkis sé á nokkurn hátt dregið í efa.

Árið 1949 hafi Ísrael óskað eftir aðild að Sameinuðu þjóðunum en ári fyrr hafði Ísrael lýst einhliða yfir sjálfstæði sínu sem byggðist á fyrrnefndri ályktun allsherjarþingsins nr. 181. Ísraelsk stjórnvöld hafi á þessum tíma færðu rök fyrir því að niðurstaða í landamæradeilu þeirra við Palestínumenn ætti ekki að vera skilyrði viðurkenningar á Ísraelsríki og fyrir fullri aðild þess að Sameinuðu þjóðunum. Þess í stað ætti að leysa úr deilumálunum við samningaborðið, helst með leiðsögn Sameinuðu þjóðanna og með Ísrael sem fullgilt aðildarríki að stofnuninni.

„Ísland var í hópi þeirra ríkja sem studdu aðildarumsókn Ísraels. Nú, 62 árum síðar, er löngu tímabært að sömu rök gildi um Palestínumenn og þeir hljóti einnig þau réttindi að fá sæti við sama borð og aðrar þjóðir heims og að Palestína verði viðurkennt sem sjálfstætt og fullvalda ríki," segir í greinargerðinni.

Þingsályktunartillagan

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert