Fréttaskýring: Fjárlagafrumvarp 2012: Nýr launaskattur í vændum

Skatturinn á að leggjast á heildarlaunagreiðslur fjármálafyrirtækja. Hjá þeim starfa …
Skatturinn á að leggjast á heildarlaunagreiðslur fjármálafyrirtækja. Hjá þeim starfa nokkur þúsund manns. mbl.is/Ernir

„Það kom okkur gjörsamlega í opna skjöldu þegar við fréttum af því í miðri síðustu viku að leggja ætti á sérstakan launaskatt á fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóði. Þetta er nýr skattur sem kemur í bakið á okkur og alveg fordæmalaus,“ segir Arnar Sigurmundsson, formaður Landssambands lífeyrissjóða.

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2012 er gert ráð fyrir sérstökum launaskatti á fjármálafyrirtæki og áætlar fjármálaráðherra að úr honum fáist 4.500 milljónir króna í tekjur fyrir ríkissjóð.

Enn fremur segir Arnar að þarna sé um að ræða mjög íþyngjandi launaskatt sem lagður er einungis á eina atvinnugrein. „Enn og aftur á að fara að skattleggja lífeyrissjóðina og nú með sérstökum launaskatti sem nærri tvöfaldar þann launaskatt sem er fyrir. Þarna er um 10,5 prósent skatt að ræða sem leggst ofan á tryggingargjaldið. Ef þetta gengur eftir mun rekstarkostnaður lífeyrissjóðanna hækka og það mun koma fram í lífeyrisgreiðslum til sjóðsfélaga ef það gerist.“ Hjá lífeyrissjóðunum starfa rúmlega 200 manns en hjá bönkunum starfa á milli 4.000 og 5.000 manns.

Gæti þýtt hærri þjónustugjöld eða vexti

Hækkun launakostnaðar getur því þýtt fækkun starfsfólks eða hækkun þjónustugjalda eða vaxta. Skatturinn sem fyrirhugaður er af ríkisstjórninni mun því væntanlega lenda að einhverju leyti á heimilum landsins. Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, segist ekki trúa því að ríkisstjórnin ætli sér að leggja sérstakan skatt á eina starfsstétt umfram aðrar. „Ég heyrði af þessu núna fyrst í fjölmiðlum og það hefur enginn, hvorki frá fjármálaráðuneytinu né aðrir aðilar ríkisstjórnarinnar, kynnt okkur þennan fyrirhugaða skatt.“ Friðbert telur það líka sérstakt að ríkisstjórn sem kennir sig við velferð og jafnrétti skuli leggja sérstakan skatt á stétt þar sem 75 prósent starfsmanna eru konur. „Ég er þessa stundina staddur á ráðstefnu starfsmanna fjármálafyrirtækja í Evrópu og hér er verið að berjast gegn svona sköttum. Þeir sem benda á að sambærilegur skattur sé í Danmörku eða Frakklandi eru þá ekki að líta til þess að í Danmörku greiða fyrirtæki ekki tryggingargjald og í Frakklandi er skattur af þessum toga lagður á fjölda atvinnugreina til að standa undir eftirlitsstofnunum á hverju sviði.“

Hvorki framkvæmd né ástæða þekkt

Ekki liggur fyrir hver framkvæmd skattlagningarinnar verður né heldur hvers vegna skatturinn er sérstaklega lagður á fjármálafyrirtæki. „Hugsanlega eru menn að gera þetta til að halda niðri ofurlaunum en til eru allt aðrar leiðir til að sporna við þeim en þessi. Það er ekki hægt að leggja það á heila stétt að tvöfalda við hana launakostnað til þess eins að eltast við eitt prósent fólks í stéttinni sem er með svokölluð ofurlaun.“ Meðallaun í útibúi eru að sögn Friðberts á bilinu 300 til 400 þúsund og það geti varla talist til ofurlauna í dag. Ekki sé sanngjarnt að miða heila stétt við örfáa ofurlaunamenn.

Allt að 10,5% skattur

» Launaskattur fjármálafyrirtækja gæti meira en tvöfaldast samkvæmt nýjum fjárlögum ríkisstjórnarinnar.
» Ekki haft samráð við Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja né Landssamband lífeyrissjóða.
» Sagt vera að danskri og franskri fyrirmynd.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert