Fólk vill geta greitt af lánum

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í kvöld.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í kvöld. mbl.is/Ómar

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að þeir sem séu að mótmæla ástandinu í landinu vilji hafa vinnu, krefjist bættra lífskjara og vilji geta greitt af lánum sínum. Tækifærin séu til staðar til að breyta stöðunni en ríkisstjórnin bregði fæti fyrir þá sem vilji fjárfesta.

Bjarni sagði þetta í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra. Hann sagði að annað árið í röð færi þingsetning fram í skugga einhverra fjölmennustu mótmæla sem sést hefðu um langt skeið.

„Það fólk sem stóð hér fyrir utan Alþingishúsið á laugardaginn og stendur hér fyrir utan í kvöld er ekki að lýsa yfir stuðningi við ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.   Þetta fólk var að mótmæla því ástandi sem ríkir á Íslandi í dag.   Það vill vinnu.  Það vill bætt lífskjör.  Það vill geta greitt af lánum sínum.  Það mótmælir verðbólgu og verðtryggingu.  Það mótmælir einnig öllum þeim hækkunum og álögum sem á það hefur verið lagt á síðustu misserum í miðri efnahagslægðinni,“ sagði Bjarni.

Hann sagði að atvinnulífið væri búið að fá nóg, eins fram hefði komið á fundi Samtaka atvinnulífsins í vikunni.  „Nú er svo komið að atvinnulífið tekur ekki lengur mark á orðum ríkisstjórnarinnar.  Hvorki skriflegum né munnlegum yfirlýsingum hennar. Heimilin í landinu eru búin að fá nóg, eins og mótmælin hér við Alþingishúsið sýna.      Og meira að segja lögreglan er búin að fá nóg.“

Bjarni sagði að á fundum sem hann hefði farið á víða um land hefði hann ítrekað verið spurður hvernig hægt væri að rjúfa kyrrstöðuna sem ríkti í atvinnulífinu. Svarið væri bara eitt, að hefja nýtt skeið öflugs hagvaxtar.

„Við upphaf þessa þings mun Sjálfstæðisflokkurinn enn á ný leggja fram efnahagsáætlun sem varðar leiðina fram á við.  Ég fullyrði að stjórnarandstöðuflokkur hefur aldrei teflt fram metnaðarfyllri áætlun um úrbætur í efnahagsmálum.  Meginmarkmið efnahagstillagna Sjálfstæðisflokksins er að skapa störf.  Við viljum hjálpa þeim sem geta unnið að komast af bótum til verðmætaskapandi starfa.  Það er sameiginleg skylda allra stjórnmálamanna í þessu landi að segja atvinnuleysinu stríð á hendur. Til að hagvöxtur hefjist þarf frið um okkar mikilvægustu atvinnugrein, sjávarútveginn.  Vegna óvissunnar hefur árleg fjárfesting í sjávarútvegi hrapað úr 19 milljörðum eins og hún var á síðasta áratug niður í um 4,5 miljarða á síðastliðnum árum.  Sjálfstæðisflokkurinn vill efla sjávarútveginn, en ekki grafa undan þessari mikilvægustu atvinnugrein okkar með viðvarandi óvissu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert