Hefðum að óbreyttu farið á hausinn

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Golli

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun, að baráttan um það hvort Ísland færi á hausinn hefði unnist. Enginn ræddi lengur um hvort Ísland kynni að lenda í greiðslufalli.

„Við náum svokölluðum frumjöfnuði á þessu ári. Þá er rekstur ríkisins farinn að standa undir sér og á árinu 2014 verður kominn afgangur á rekstri ríkisins í heild. Þá getum við farið að borga skuldirnar," sagði Steingrímur.

„Þessi árangur skiptir sköpum. Árið 2009 var hallinn á frumjöfnuði 100 milljarðar króna áður en kom að vaxtagjöldum. Á næsta ári verður 40 milljarða afgangur á þessum lið. Þá hefur rekstur ríkisins batnað um 140 milljarða króna. Það eru gríðarlegir fjármunir og hefði þetta ekki verið gert hefðum við einfaldlega, á 3-5 árum, farið á hausinn.  Baráttan stóð um að tryggja að það gerðist ekki og það hefur tekist. Maður getur hallað sér aftur á bak nú og sagt með fullri vissu: Já, Ísland hefur sig í gegnum þetta. En þetta er erfitt og það gat aldrei orðið annað en erfitt þegar þjóðarbúið verður fyrir jafn miklu áfalli og gerðist 2008."

Steingrímur sagði að gert væri að ráð fyrir því að atvinnuvegafjárfesting muni aukast á næstu árum og atvinnuleysi minnki. Hann sagði að þrátt fyrir niðurskurð í ríkisfjármálum væri hvergi farið niður fyrir öryggismörk í frumþjónustu í samfélaginu.

Vefur Ríkisútvarpsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert