„Refsa mér fyrir að vera óþekkur“

Atli Gíslason
Atli Gíslason mbl.is/Árni Sæberg

Atli Gíslason hefur sagt sig úr umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis eftir að hafa verið skipaður í nefndina síðastliðinn laugardag gegn vilja sínum. Atli, þingmaður utan flokka, segir þessi vinnubrögð óboðleg og að verið sé að refsa sér fyrir óþekkt.

„Ég gaf kost á mér í þrjár nefndir: allsherjar- og menntamálanefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og atvinnuveganefnd, og til vara í utanríkismálanefnd. Ég var búinn að hafna umhverfis- og samgöngunefnd og taka þessar þrjár eða fjórar fram og heyri það svo bara í þingsal að ég sé þarna inni,“ segir Atli.

Hann segir skýringuna á því af hverju hann er settur í þessa nefnd en ekki hinar vera þá að verið sé að refsa honum.

„Ástæðan fyrir því að menn vilja mig ekki í þær nefndir sem ég hef mesta reynslu til að sinna og mundi vera hagstætt fyrir þjóð og þing er einfaldlega sú að það er verið að refsa mér, ég er óþekkur. Ég fór úr þingflokki VG og styð ekki efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, er að berjast fyrir heimilin og gegn atvinnuleysi og mín sjónarmið hafa ekki orðið ofan á,“ segir Atli. „Það er bara verið að refsa mér fyrir að vera óþekkur.“

Hann segist fyrst og fremst hafa sagt sig úr nefndinni í mótmælaskyni, það sé ekki þannig að hann hefði ekki getað unnið að umhverfis- og samgöngumálum.

Grátlegast við nefndaskipanina sé þó að meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sé skipaður stjórnarliðum en ekki stjórnarandstöðu.

„Það er mín eindregna skoðun að sú nefnd eigi að vera í meirihluta stjórnarandstöðu á hverjum tíma. Það er grundvallaratriði og í anda skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefndarinnar, þ.e.a.s. að stjórnarandstaðan fari með veigamikið hlutverk í eftirliti með stjórnsýslunni. Það virkar ekki að menn hafi eftirlit með sjálfum sér. Þetta er það sorglegasta við nefndaskipan Alþingis,“ segir Atli.

Hann gangrýnir einnig að stjórnarandstaðan fari ekki með formennsku í neinni nefnd, eins og þingsköp geri ráð fyrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert