Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, gagnrýnir harðlega niðurskurð í velferðarmálum í fjárlagafrumvarpi næsta árs. „Það var klárt samkvæmt samkomulagi okkar við stjórnvöld frá því í maí að atvinnuleysistryggingabætur og lífeyristryggingabætur ættu að hækka í samræmi við hækkun lægstu launa,“ segir Gylfi.
„En þetta frumvarp gerir ráð fyrir því að bætur almannatrygginga hækki bara um 3,5 prósent, sem er klárlega í andstöðu við þau fyrirheit sem voru gefin og alveg ljóst að hart verði tekið á því í mínu baklandi. Þetta eru lífeyrisréttindi okkar félagsmanna, þ.e. almannatryggingarnar og við sjáum engin rök fyrir því að þeir sem eru á atvinnuleysisbótum séu með minni hækkanir,“ bætir Gylfi við í Morgunblaðinu í dag.
Í umfjöllun um fjárlagafrumvarpið í Morgunblaðinu í dag segir, að tillögur um sérstakan launaskatt á banka, lífeyrissjóði og vátryggingafélög, sem á að skila 4,5 milljörðum, mæti einnig hörðum viðbrögðum.
Arnar Sigurmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, segir skattinn tvöfalda launaskatt á fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóði sem leiði til hærri rekstrarkostnaðar sem komi fram í lífeyrisgreiðslum til sjóðfélaganna verði skatturinn að veruleika.
Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, segist ekki trúa því að ríkisstjórnin ætli sér að leggja sérstakan skatt á eina starfsstétt umfram aðrar.