Tveimur ákæruliðum vísað frá

Landsdómur.
Landsdómur. mbl.is/Kristinn

Lands­dóm­ur hef­ur vísað frá tveim­ur ákæru­liðum í ákæru sak­sókn­ara Alþing­is gegn Geir H. Haar­de, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra.  Að öðru leyti hafn­ar dóm­ur­inn kröfu Geirs um frá­vís­un máls­ins. 

Ákæru­liðum 1.1 og 1.2 er sam­kvæmt þessu vísað frá lands­dómi. Í fyrri liðnum var Geir ákærður fyr­ir að hafa sýnt af sér al­var­lega van­rækslu á starfs­skyld­um sín­um sem
for­sæt­is­ráðherra and­spæn­is stór­felldri hættu sem vofði yfir ís­lensk­um fjár­mála­stofn­un­um og rík­is­sjóði. Hefði hann getað brugðist við henni með því að beita sér fyr­ir aðgerðum, lög­gjöf, út­gáfu al­mennra stjórn­valds­fyr­ir­mæla eða töku stjórn­valdsákv­arðana á grund­velli gild­andi laga í því skyni að af­stýra fyr­ir­sjá­an­legri hættu fyr­ir heill rík­is­ins.

Seg­ir lands­dóm­ur að sak­argift­ir í þess­um ákæru­lið full­nægi ekki þeim kröf­um, sem gerðar séu í lög­um um meðferð saka­mála um að greina skuli svo glöggt sem verða megi hver sú hátt­semi sé, sem ákært er fyr­ir. Verði að fall­ast á að Geir sé ekki kost­ur að und­ir­búa vörn sína gegn svo al­mennt orðuðum sök­um.

Í ákæru­lið 1.2. var Geir ákærður fyr­ir að hafa látið und­ir höfuð leggj­ast að hafa frum­kvæði að því að inn­an stjórn­kerf­is­ins væri unn­in heild­stæð og fag­leg grein­ing á fjár­hags­legri áhættu sem ríkið stóð frammi fyr­ir vegna hættu á fjár­mála­áfalli.

Lands­dóm­ur seg­ir, að þessi hátt­semi geti ekki án sam­heng­is við önn­ur atriði tal­ist refsi­verð ein út af fyr­ir sig. Nauðsyn­legt hefði því verið að að rök­styðja frek­ar í ákæru til hvers mætti ætla að slík grein­ing hefði nýst og hverju hefði mátt forða hefði hún verið gerð. Þá fellst lands­dóm­ur ekki á það með Geir, að refsi­heim­ild­ir séu ekki nægi­lega skýr­ar til að hann geti haldið uppi vörn­um gegn sak­argift­um í mál­inu.

Lands­dóm­ur tel­ur hins veg­ar ekki að þeir ann­mark­ar hafi verið á rann­sókn máls­ins að það geti varðað frá­vís­un þess. Þá tel­ur dóm­ur­inn ekki að sak­sókn­ari Alþing­is sé van­hæf­ur í mál­inu.

Loks tel­ur dóm­ur­inn ekki að ákvörðun Alþing­is, sem hand­hafa ákæru­valds, sæti end­ur­skoðun lands­dóms á þann veg að það geti varðað frá­vís­un. Lögmaður Geirs taldi, að það bryti gegn 65. grein stjórn­ar­skrár Íslands um jafn­rétti að Geir skyldi einn hafa verið ákærður í mál­inu. Um það seg­ir lands­dóm­ur, að sam­kvæmt stjórn­ar­skrá séu þing­menn ein­göngu bundn­ir við sann­fær­ingu sína og greiði því m.a. at­kvæði um þing­mál sam­kvæmt sann­fær­ingu sinni. Því verði ekki fall­ist á, að at­kvæðagreiðslan á Alþingi um máls­höfðun á hend­ur ráðherr­um hafi falið í sér brot á 65. grein stjórn­ar­skrár­inn­ar.

Einn dóm­ari, Ástríður Gríms­dótt­ir, skilaði sér­at­kvæði og vildi vísa mál­inu frá dómi í heild á þeirri for­sendu að Sig­ríður Friðjóns­dótt­ir, sak­sókn­ari Alþing­is, væri van­hæf vegna þess að hún hefði veitt Alþingi ráðgjöf í tengsl­um við málið.

Úrsk­urður lands­dóms

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka