Tveimur ákæruliðum vísað frá

Landsdómur.
Landsdómur. mbl.is/Kristinn

Landsdómur hefur vísað frá tveimur ákæruliðum í ákæru saksóknara Alþingis gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra.  Að öðru leyti hafnar dómurinn kröfu Geirs um frávísun málsins. 

Ákæruliðum 1.1 og 1.2 er samkvæmt þessu vísað frá landsdómi. Í fyrri liðnum var Geir ákærður fyrir að hafa sýnt af sér alvarlega vanrækslu á starfsskyldum sínum sem
forsætisráðherra andspænis stórfelldri hættu sem vofði yfir íslenskum fjármálastofnunum og ríkissjóði. Hefði hann getað brugðist við henni með því að beita sér fyrir aðgerðum, löggjöf, útgáfu almennra stjórnvaldsfyrirmæla eða töku stjórnvaldsákvarðana á grundvelli gildandi laga í því skyni að afstýra fyrirsjáanlegri hættu fyrir heill ríkisins.

Segir landsdómur að sakargiftir í þessum ákærulið fullnægi ekki þeim kröfum, sem gerðar séu í lögum um meðferð sakamála um að greina skuli svo glöggt sem verða megi hver sú háttsemi sé, sem ákært er fyrir. Verði að fallast á að Geir sé ekki kostur að undirbúa vörn sína gegn svo almennt orðuðum sökum.

Í ákærulið 1.2. var Geir ákærður fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að hafa frumkvæði að því að innan stjórnkerfisins væri unnin heildstæð og fagleg greining á fjárhagslegri áhættu sem ríkið stóð frammi fyrir vegna hættu á fjármálaáfalli.

Landsdómur segir, að þessi háttsemi geti ekki án samhengis við önnur atriði talist refsiverð ein út af fyrir sig. Nauðsynlegt hefði því verið að að rökstyðja frekar í ákæru til hvers mætti ætla að slík greining hefði nýst og hverju hefði mátt forða hefði hún verið gerð. Þá fellst landsdómur ekki á það með Geir, að refsiheimildir séu ekki nægilega skýrar til að hann geti haldið uppi vörnum gegn sakargiftum í málinu.

Landsdómur telur hins vegar ekki að þeir annmarkar hafi verið á rannsókn málsins að það geti varðað frávísun þess. Þá telur dómurinn ekki að saksóknari Alþingis sé vanhæfur í málinu.

Loks telur dómurinn ekki að ákvörðun Alþingis, sem handhafa ákæruvalds, sæti endurskoðun landsdóms á þann veg að það geti varðað frávísun. Lögmaður Geirs taldi, að það bryti gegn 65. grein stjórnarskrár Íslands um jafnrétti að Geir skyldi einn hafa verið ákærður í málinu. Um það segir landsdómur, að samkvæmt stjórnarskrá séu þingmenn eingöngu bundnir við sannfæringu sína og greiði því m.a. atkvæði um þingmál samkvæmt sannfæringu sinni. Því verði ekki fallist á, að atkvæðagreiðslan á Alþingi um málshöfðun á hendur ráðherrum hafi falið í sér brot á 65. grein stjórnarskrárinnar.

Einn dómari, Ástríður Grímsdóttir, skilaði sératkvæði og vildi vísa málinu frá dómi í heild á þeirri forsendu að Sigríður Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis, væri vanhæf vegna þess að hún hefði veitt Alþingi ráðgjöf í tengslum við málið.

Úrskurður landsdóms

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka