Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði að efna ætti til þingkosninga. Sópa þyrfti eftirlegukindum hrunsins út af þingi.
Hann sagði að úrræðin í skuldamálum heimilanna væru á við handrit eftir Franz Kafka. „Bankakerfið afskrifar tugi milljarða til pólitískt tengdra sægreifa og tekur ekki einu sinni kvótann upp í til endursölu. Þingmenn á spena fjármálafyrirtækja sitja enn á þingi og skuldir eins þingmanns Sjálfstæðisflokksins frá því fyrir hrun, sem ekki verða greiddar, duga fyrir árslaunum verkamanns í rúmlega fimm hundruð ár. Blindan á eigið vanhæfi er sláandi.“
Þór sagði að eina færa leiðin væri að gefa almenningi kost á að segja álit sitt á þeim stjórnmálum, því stjórnkerfi og því stjórnarfari sem ríkt hefði hér allt of lengi með kosningum. „Eftirlegu kindum hrunsins þarf að koma út með kosningum sem fyrst,“ sagði Þór og bætti við að ekki mætti þó kjósa fyrr en Alþingi hefði komið sér saman um breytingar á stjórnarskrá landsins og lausn á skuldavanda heimilanna.