Banna trúboð í skólum

Áfram má setja upp helgileiki í skólum á jólum.
Áfram má setja upp helgileiki í skólum á jólum. Mbl.is/Ómar Óskarsson.

Borgarstjórn samþykkti á fundi sínum í dag tillögu borgarráðs um samskipti leik- og grunnskóla og frístundaheimila borgarinnar við trúar- og lífsskoðunarfélög. Tillagan var samþykkt með tíu atkvæðum gegn fimm.

Reglurnar fela í sér að trúar- og lífsskoðunarfélög skulu ekki stunda starfsemi sína innan veggja leik- og grunnskóla borgarinnar á skólatíma né heldur á starfstíma frístundaheimila. Þetta á við allar heimsóknir í trúarlegum tilgangi og dreifingu á boðandi efni. Með boðandi efni er átt við hluti sem gefnir eru eða notaðir sem hluti af trúboði, það er tákngripir, fjölfölduð trúar- og lífsskoðunarrit, bækur, hljóðrit, prentmyndir og kvikmyndir.

Reglurnar kveða á um að um almenna kynningu gagnvart foreldrum og börnum á viðurkenndu barna- og æskulýðsstarfi trúfélaga skuli fara líkt og með kynningu á hliðstæðum frístundatilboðum frjálsra félagasamtaka.

Skólastjórnendur grunnskóla geta boðið fulltrúum trúar- eða lífsskoðunarhópa að heimsækja kennslustundir í trúarbragðafræði/lífsleikni sem lið í fræðslu um trú og lífsskoðanir samkvæmt gildandi aðalnámsskrá og námsefni, og skal heimsóknin þá fara fram undir handleiðslu kennara og vera innan ramma námsefnisins.

Heimsóknir á helgi- og samkomustaði trúar- og lífsskoðunarfélaga á skólatíma grunnskóla skulu eiga sér stað undir handleiðslu kennara sem liður í fræðslu um trú og lífsskoðanir, samkvæmt gildandi lögum og aðalnámskrá.

„Þess verði gætt við allar heimsóknir til og frá grunnskóla vegna fræðslu um trú og lífsskoðanir að nemendur fylgist með en séu ekki þátttakendur í helgisiðum og athöfnum, og að þær séu ekki vettvangur fyrir innrætingu eða dreifingu á boðandi efni,“ segir í reglunum.

Tekið er fram að sígildir söngvar, dansar, leikir og handíðir sem teljast hluti af gamalgrónum hátíðum og frídögum þjóðarinnar halda sessi sínum í árstíðabundnum skemmtunum og starfi frístundaheimila, leik- og grunnskóla. Jólasálmar og helgileikir tengdir jólum falli undir þetta.

„Til grundvallar þessum reglum liggur sá vilji að tryggja rétt barna til þátttöku í skólastarfi óháð þeirri trúar- og lífsskoðun sem þau alast upp við. Upplýst fræðsla um kristna trú, trúarbrögð heimsins, lífsskoðanir, siðfræði, heimspeki og íslenska menningu, er mikilvæg í öllu starfi skóla borgarinnar. Trúarleg innræting og boðun tiltekinna lífsskoðana á þar ekki heima. Það er á hendi foreldra að ala börn sín upp í þeirri trúar- og lífsskoðun sem þeir kjósa. Um það munu starfsmenn Reykjavíkur standa vörð samkvæmt mannréttindastefnu borgarinnar og þeim mannréttindasáttmálum sem Ísland hefur undirgengist,“ segir í reglunum.

Nýju reglurnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka