Fjarlægði vélina og skilaði inn bílnum

Lýsing er til il húsa í Ármúlanum
Lýsing er til il húsa í Ármúlanum mbl.is/Eggert Jóhannesson

Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt 25 ára karlmann í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir fjárdrátt. Maðurinn fjarlægði vél og gírkassa úr bifreið sem hann hafði til umráða en bar að skila til fjármögnunarfyrirtækisins Lýsingar vegna vanefnda bílasamnings.

Maðurinn játaði brot sitt fyrir dómi en hafnaði bótaskyldu upp á rúmar fjórar milljónir vegna þeirra muna sem hann tók. Var bótamálið því aðskilið og þarf Lýsing að höfða einkamál til að fá fjárdráttinn bættan.

Við rannsókn málsins hjá lögreglu bar maðurinn á þá leið að vél bifreiðarinnar hafi „hrunið“ og hann látið fjarlægja vélina í þeim tilgangi að láta gera við hana. Gírkassi bifreiðarinnar hafi einnig verið fjarlægður úr bifreiðinni í einni og sömu aðgerðinni. Hann vildi hins vegar ekki gefa upp hvar umræddir hlutir væru niðurkomnir, þótt eftir því hafi ítrekað verið gengið við rannsókn málsins.

Við ákvörðun refsingar leit dómurinn til þeirra verðmæta sem maðurinn dró sér. Þá segir að fyrir liggi að ákæra málsins var ekki gefin út fyrr en tæpum tveimur árum eftir að rannsókn málsins hófst hjá lögreglu. Gögnin beri með sér að rannsókn þess hafi að mestu legið niðri frá lokum nóvembermánaðar 2009 til marsmánaðar 2011, án þess að séð verði að ákærða verði um það kennt. Var litið til þessa þegar ákveðið var að skilorðsbinda refsinguna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert