Forseti Íslands kom nokkuð við sögu í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í gærkvöldi. Annars vegar lagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra honum línurnar þegar kemur að því að tjá sig opinberlega og hins vegar gagnrýndi Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra málflutning forsetans við þingsetningu á laugardag.
Svandís sagði forsetanum ætlað að flytja boðskap samstöðu og sameiningar með þjóðinni. Það hefði hann ekki gert við þingsetninguna. „Forsetinn tók til máls sem stjórnmálamaður en ekki forseti. Þingheimur átti þess ekki kost að svara honum á sama vettvangi heldur sátum við eins og þægur skólabekkur undir lestrinum.“
Að lokum hvatti Svandís þingmenn til að láta ekki Ólaf Ragnar spilla fyrir þeim góða vilja til samstöðu sem ríki í stjórnarskrármálinu og ríkti í stjórnlagaráði.
Áður sagði Jóhanna að ekki væri hægt að ráða það af stjórnskipun landsins að forsetinn talaði fyrir öðrum áherslum í pólitískum álitamálum en þeim sem stjórnvöld hefðu mótað. Hann þyrfti aukinheldur að vera yfir dægurþras stjórnmálanna hafinn.
Þegar leitað var eftir viðbrögðum forseta í gærkvöldi sagði Örnólfur Thorsson forsetaritari í samtali við Morgunblaðið að Ólafur Ragnar myndi ekki tjá sig að svo komnu máli. Að því er kom fram í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins í gærkvöldi voru ágreiningsmál ríkisstjórnarinnar og forsetans ekki rædd á ríkisráðsfundi sem fram fór á Bessastöðum í gær.