Karlmaður gaf sig fram við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í dag í kjölfar frétta af því að tvö skothylki hefðu fundist við þinghúsið. Lögreglan segir að maðurinn, sem sé gæsaskytta, hafi líklega misst þau við þinghúsið í gær. Engin ástæða sé til að gruna manninn um græsku.
Hörður Jóhannesson, aðstoðarlögreglustjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að búið sé að greina þinginu frá þessum upplýsingum. Málið sé að mestu upplýst og mun lögreglan því ekkert aðhafast frekar.
„Það gaf sig fram maður sem heyrði þessa frétt og hafði verið á Austurvelli í gær. Það stóð þannig á að hann var með nokkur skot í vasanum, því hann hafði verið á gæsaskytteríi um helgina. Og hann gæti hafa misst tvö, þrjú eða fjögur skot í gær. Hann var ekki alveg viss um það. En þegar hann heyrði þessar fréttir þá kom hann hingað og gaf sig fram og sagði frá þessu,“ segir Hörður.
Hörður segir að maðurinn hafi verið með nokkur skot í vasanum sem lögreglan gat borið saman við þau sem fundust fyrir framan þinghúsið í morgun. „Þessi skot sem fundust voru sama tegund. Þannig að þetta er mjög líkleg skýring,“ bætir hann við.
Aðspurður segir Hörður: „Þetta er veiðimaður og við fórum yfir reglurnar sem gilda [verklagsreglur um skotvopn og skotfæri].“ Maðurinn hafi gert grein fyrir sér og sínum ferðum.
„Við höfum enga ástæðu til að gruna þennan mann um græsku.“ Hann hafi verið viðstaddur mótmælin í gær í friðsömum tilgangi.
Þá hefur lögreglan sent frá sér tilkynningu um málið.