Vinnuhópur verður settur á fót til að skilgreina þau viðmið sem nota skal við mat á stöðu jafnréttismála í leikskólum og grunnskólum Akureyrar. Skólanefnd sveitarfélagsins samþykkti þetta á fundi sínum í gær.
Skólanefnd samþykkti á fundi sínum 12. september sl., að fela fræðslustjóra og jafnréttisfulltrúa að koma með tillögu að framkvæmd verkefnis sem snýr að leik- og grunnskólum í jafnréttisstefnu Akureyrarbæjar.
Í tillögu þeirri sem skólanefnd barst segir, að samkvæmt nýjum námskrám fyrir leikskóla og grunnskóla skuli jafnrétti birtast í inntaki námsgreina og námssviða aðalnámskrár, í hæfni nemenda, námsmati, skólanámskrá og innra mati skóla. „Leikskólar og grunnskólar skulu vinna að jafnréttismálum í samræmi við lög og reglugerðir. Jafnréttisáætlanir skulu endurskoðaðar reglulega.“
Vinnuhópurinn skal ljúka störfum í lok maí á næsta ári og í sjálfsmatsskýrslum skal með reglubundnum hætti gera grein fyrir stöðu jafnréttismála út frá þeim viðmiðum sem sett verða.