Lítil fjárfesting kallar á neyðaraðgerðir

Illugi Gunnarsson
Illugi Gunnarsson mbl.is

Illugi Gunnarsson, alþingismaður Sjálfstæðisflokks, segir að kjarasamningar sem gerðir voru á þessu ári byggi á því að hér verði 4% hagvöxtur, en ekkert benti til að það mark náist. Fjárlagafrumvarpið byggi því á einkaneyslu sem eigi sér ekki forsendur.

Illugi gagnrýndi forsendur fjárlagafrumvarpsins í umræðu um frumvarpið á Alþingi í dag. Hann sagði að hagvaxtarspáin sem frumvarpið byggir á væri veik. Hagvöxturinn væri fyrst og fremst byggður aukinni einkaneyslu og hún væri aðallega komin til af þrennum ástæðum. Í fyrsta lagi hefði fólk verið að taka út séreignarsparnað. Í öðru lagi væri ríkið að greiða út háar upphæðir í vaxtabætur og í þriðja lagi hefðu verið gerðir kjarasamningar sem fælu í sér hækkun launa. Þessir samningar byggðu hins vegar á því að hér yrði verulegur hagvöxtur eða um 4%. Fátt benti til að þessar forsendur stæðust.

Illugi sagði að við yrðum að auka fjárfestingar hér á landi. Fjárfestingar á Íslandi væru það lágar að það ætti að kalla á neyðaraðgerðir af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ísland væri í öðru af neðstu sætum yfir fjárfestingar í Evrópu. Efnahagslífið næði sér aldrei á skrið ef við fjárfesting myndi ekki aukast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert