Sérfræðingar meti svigrúm banka til afskrifta

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefur ákveðið að kalla saman sérfræðingahópinn sem vann skýrslu um skuldavanda heimilanna fyrir um ári.

Hópnum er ætlað að fara yfir fyrirliggjandi gögn um afföll húsnæðislána heimilanna, þegar þau voru færð frá gömlu bönkunum yfir til nýju bankanna og meta hvernig það svigrúm til afskrifta sem þannig myndaðist hefur verið nýtt heimilum landsins til hagsbóta.

Fram kemur í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu, að þegar nýir bankar voru reistir á grunni hinna föllnu banka hafi lánasafn gömlu bankanna verið fært yfir til hinna nýju með afslætti til að lánin væru metin á sannvirði. Á þennan hátt hafi skapast svigrúm til afskrifta hjá hinum nýju bönkum.

Viðskiptaráðherra hafi sagt í svari við fyrirspurn á Alþingi, að húsnæðislán heimilanna voru færð yfir í nýju bankana á 72% af kröfuvirði að meðaltali og að afföllin (svigrúm til afskrifta) væri því um 90 milljarðar króna vegna þessara lána. Í svarinu var vísað til gagna frá FME en forsætisráðuneytið segir að í fjölmiðlum hafi því ítrekað verið haldið fram að svigrúmið sé hærra og jafnvel miklu hærra.

Í upplýsingum frá Samtökum fjármálafyrirtækja hafi  jafnframt komið fram, að í lok júlí í ár hafi bankar og fjármálastofnanir afskrifað um 144 milljarðar frá hruni, á grundvelli 87.200 umsókna vegna lána einstaklinga, þar af um 100 milljarða vegna fasteignalána heimilanna. Þá voru enn í vinnslu um 6300 umsóknir sem reiknað er með að verði lokið fyrir áramót.

Sérfræðingahópnum er ætlað að fara yfir þessar upplýsingar og önnur nauðsynleg gögn í því skyni að upplýsa hið rétta um afskriftir á lánum heimilanna, bæði við yfirfærslu þeirra frá gömlu bönkunum til hinna nýju og afskriftir til heimilanna sjálfra.

Efnahagsráðgjafi forsætisráðherra, Sigurður Snævarr stýrir hópnum en í honum eru einnig fulltrúar stjórnvalda, fjármálastofnanna, lífeyrissjóða og Hagsmunasamtaka heimilanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert