Siv Friðleifsdóttir, alþingismaður Framsóknarflokksins, sagði í dag af sér embætti 4. varaforseta Alþingis. Hún segir að þetta hafi orðið niðurstaða á þingflokksfundi Framsóknarflokksins í dag.
Kosinn verður nýr varaforseti í stað Sivjar á þingfundi á morgun. Siv sagði aðspurð að það hefði verið niðurstaða þingflokks Framsóknarflokksins að hún viki úr forsætisnefnd. Þegar Siv var spurð hvort þessi niðurstaða hefði einhver áhrif á stöðu hennar innan flokksins svaraði hún: „Ég mun sinna þeim störfum sem ég er í.“ Hún vísaði á Gunnar Braga Sveinsson þingflokksformann þegar spurt var um ástæður þess að þingflokkurinn hefði tekið þessa ákvörðun.
Gunnar Bragi sagði að þingflokkurinn þyrfti að manna átta þingnefndir og fjögur sæti í alþjóðanefndum þingsins og eitt sæti í forsætisnefnd. Þessu þyrfti að skipta á milli þingmanna og það hefði orðið niðurstaða þingflokksins að færa menn til. Í því fælist alls ekkert vantraust á störf Sivjar.
Gunnar Bragi sagði óeðlilegt að það yrðu engar breytingar á kjörtímabilinu. Þingmenn legðu fram óskir um sæti í þingnefnd og það væri ekki hægt að uppfylla óskir allra.