„Það er sjálfsagður réttur fólks að láta í sér heyra og maður kvartar ekki undan því á meðan það fer fram og maður vonar það besta í þeim efnum," sagði Steingrímur. J. Sigfússon, fjármálaráðherra, eftir umræðurnar um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í gærkvöldi.
Um þúsund manns voru á Austurvelli og börðu tunnur meðan á umræðunum stóð. Steingrímur sagði í ræðu að hann ætlaði að taka mótmælin alvarlega.
„Ég geri það að sjálfsögðu og ég held að við gerum það öll. Í þessu eru fólgin margskonar skilaboð (...) ég held að þetta séu skilaboð, ekki aðeins til ríkisstjórnarinnar heldur stjórnmálanna allra, þingsins sem stofnunar og jafnvel stjórnkerfisins að hluta til, sem þjóðinni finnst að standi sig ekki nógu vel og vinni ekki nógu hratt, markvisst og öfluglega úr þessum erfiðleikum."