Lögð hefur verið fram þingsályktunartillaga um að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um tillögur stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá. Atkvæðagreiðslan fari fram samhliða forsetakosningum á næsta ári.
Flutningsmenn tillögunnar eru Þór Saari, Róbert Marshall, Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Þráinn Bertelsson og Guðmundur Steingrímsson.
Tillagan gerir ráð fyrir að tillögur stjórnlagaráðs verði ræddar á Alþingi og fari síðan til stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem leiti eftir áliti sjö manna sérfræðinganefndar (stjórnlaganefndar) með tilmælum um að lagt verði heildstætt mat á frumvarpið sem grunn að nýrri stjórnarskrá. Að því loknu leggi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fram tillögur að breytingum ef þörf er á fyrir stjórnlagaráð eigi síðar en 1. desember 2011. Frumvarpið verði að því loknu tilbúið til kynningar almenningi eigi síðar en 1. febrúar 2012.
Gert er ráð fyrir ítarlegri kynningu á frumvarpinu um allt land sem ljúki eigi síðar en 1. Lagt er til að þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram eigi síðar en í júní 2012, samhliða forsetakosningum ef verða, þannig að stefnt verði að því að frumvarpið megi afgreiða frá Alþingi fyrir næstu reglubundnu þingkosningar í apríl 2013.