Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir það þröngsýni hjá þingmönnum sem einblíni á virkjanir í neðri hluta Þjórsár þegar rætt er um virkjanir í orkuiðnaði. Aðrir kostir séu nærtækari.
Steingrímur sagði þetta í umræðum um fjárlagafrumvarp næsta árs. Hann sagði að fjárfestingar væru að fara af stað á ýmsum sviðum, ekki síst í ferðaþjónustu.
„Orkuiðnaðurinn er eitt álitlegasta sviðið vegna þess að það er mikill áhugi og mikil eftirspurn að fá aðgang að okkar endurnýjanlegu orku á samkeppnishæfu verði. Það eru samningar á mismunandi stigum og sumir mjög langt komnir. Viljayfirlýsingar hafa þegar verið undirritaðar um þó nokkur viðbótarverkefni við þau sem þegar eru í höfn.
Það liggur fyrir að Landsvirkjun undirbýr miklar framkvæmdir í S-Þingeyjarsýslu á næstu árum. Fyrirtækið hefur boðið út hönnun tveggja virkjana og er langt komin í viðræðum um nýtingu orkunnar sem þar verður framleidd.“
Steingrímur sagði sérkennilegt að þingmenn skuli alltaf tala um Neðri-Þjórsá „eins og það sé eina vatnsfallið á Íslandi sem sé virkjanlegt, að maður tali ekki um jarðhitann.“ Hann sagði þetta þröngsýni.
„Þarna er um mjög umdeilda virkjunarkosti að ræða, bæði í héraði og á landsvísu. Það liggur alveg fyrir að margir telja að það þurfi að fara betur yfir það hvort þarna á endilega að bera niður. Sérstaklega nefni ég Urriðafossvirkjun sem að verður í vegi eins stærsta, ef ekki stærsta villta laxastofns á Íslandi, á leið sinni upp ána og mun hafa mikil áhrif á lífríki í ánni.“