Sex alþingismenn hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að velferðarráðherra verði falið að vinna 10 ára aðgerðaáætlun um tóbaksvarnir þar sem einn liðurinn verði að sala á tóbaki verði takmörkuð við apótek.
Flutningsmenn eru Siv Friðleifsdóttir, Þuríður Backman, Ásta R. Jóhannesdóttir,
Margrét Tryggvadóttir, Álfheiður Ingadóttir, Eygló Harðardóttir. Tillagan var flutt á síðasta þingi en fékkst ekki útrædd.
Í greinargerð með tillögunni segir að meginmarkmið aðgerðaáætlunarinnar sé að koma í veg fyrir að ungmenni ánetjist tóbaki og að minnka þannig nýliðun reykingamanna.
„Flutningsmenn sætta sig ekki við að tóbakssjúkdómar dragi um 300 Íslendinga til dauða árlega, þar af 20–30 vegna óbeinna reykinga. Er þingsályktunartillagan lögð fram í því skyni að fækka markvisst dauðsföllum vegna reykinga og auka lífsgæði,“ segir í greinargerð.