Páll Kr. Pálsson stjórnarformaður Sæferða í Stykkishólmi segir ekki forsendur fyrir að nýta Breiðafjarðarferjuna Baldur í siglingar milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar í vetur nema fengið verði annað skip sem geti fullnægt siglingaleiðinni yfir Breiðafjörð.
„Við erum reiðubúin til að setjast við borðið og ræða þessi mál. Siglingaleiðin yfir Breiðafjörð er hins vegar lífæðin í okkar starfsemi og því verður ekki breytt. Annars er þessi hugmynd mjög spennandi, ef það er hægt að finna leið sem þjónar hagsmunum allra, þ.e. einstaklingum og fyrirtækjum í Vestmannaeyjum og á sunnanverðum Vestfjörðum, Vegagerðinni og Sæferðum,” sagði Páll í samtali við Skessuhorn.
Óvissa ríkir enn um samgöngur við Eyjar í vetur, ljóst er að Herjólfur, sem verið hefur í slipp í Danmörku, mun nota Þorlákshöfn í vetur og samningur við Breiðafjarðarferjuna Baldur runninn út. Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, vill, að því er fram kom á mbl.is í gær, að Baldur verði notaður í vetur.
En mörgum Eyjamönnum finnst það léleg lausn, Baldur geti að vísu notað Landeyjahöfn en sé einfaldlega of lítill. Nýja höfnin skiptir sköpum fyrir Vestmannaeyjar, ferðir þangað af meginlandinu voru þrisvar sinnum fleiri fyrstu átta mánuði ársins en á sama tímabili í hittifyrra. Hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu í Eyjum segja rekstrargrundvöll þeirra standa og falla með Landeyjahöfn. Þeir hafa boðað samstöðufund á Básaskersbryggju klukkan 15 á morgun til að mótmæla „neyðarástandi þjóðvegarins Ísland-Vestmannaeyjar“.