Fréttaskýring: Framhaldsskólar fá minna

Skólameistarar telja að erfitt sé að halda uppi þeirri kennslu …
Skólameistarar telja að erfitt sé að halda uppi þeirri kennslu sem til er ætlast vegna niðurskurðar í fjárlögum ársins 2012.

Skóla­meist­ar­ar í fram­halds­skól­um segja erfitt að sjá hvernig verða eigi við kröf­um stjórn­valda um niður­skurð í fram­halds­skól­um lands­ins enn eitt árið. Komið sé að því að huga þurfi veru­lega að for­gangs­röðun, því fjár­magnið dugi ekki til að halda uppi lög­bund­inni þjón­ustu með færri krón­ur til umráða og fleiri nem­end­ur á skóla­bekkn­um.

Í nýju fjár­laga­frum­varpi er gert ráð fyr­ir að draga úr út­gjöld­um til fram­halds­skól­anna um tæp­ar 370 millj­ón­ir króna á verðlagi fjár­laga 2011. Sam­svar­andi upp­hæð fyr­ir há­skóla lands­ins er 329,5 millj­ón­ir. Þetta sam­svar­ar 2% lækk­un frá nú­ver­andi fjár­lög­um, sem er sama aðhaldskrafa og í öðrum mál­efna­flokk­um mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneyt­is­ins.

Dug­ar til að reka einn skóla

Á sama tíma og skorið er niður er gert ráð fyr­ir nokk­urri fjölg­un nem­enda, en áætlað er að 20.400 nem­end­ur muni stunda nám í fram­halds­skól­um lands­ins árið 2012.

„Þegar þess­ar 370 millj­ón­ir eru sett­ar í sam­hengi við rekstr­ar­kostnað fram­halds­skóla, þá væri til dæm­is hægt að reka um 300 nem­enda skóla í eitt ár fyr­ir þessa upp­hæð,“ seg­ir Aðal­heiður Stein­gríms­dótt­ir, formaður Fé­lags fram­halds­skóla­kenn­ara. „Þó að þetta sé í sjálfu sér ekki há tala, þá leggst hún ofan á all­an þann niður­skurð sem fram­halds­skól­arn­ir hafa þurft að þola í mörg ár.“

Aðal­heiður seg­ir að kreppu­tím­ar í fram­halds­skól­un­um hafi ekki haf­ist haustið 2008, líkt og í flest­um fyr­ir­tækj­um og stofn­un­um, því skól­un­um hafi verið gert að sýna aðhald mörg und­an­far­in ár.

Víða lé­leg­ur tækja­búnaður

„Við heyr­um að tækja­búnaður sé víða orðinn lé­leg­ur og það er áhyggju­efni. Rann­sókn, sem gerð var á síðasta ári um áhrif efna­hagskrepp­unn­ar á skóla­starfið og starfs­um­hverfi kenn­ara, sýndi að niður­skurður­inn hef­ur leikið fram­halds­skól­ana mjög grátt. Náms­hóp­ar eru orðnir allt of stór­ir og kenn­ar­ar eiga í erfiðleik­um með að sinna nem­end­um. Síðan hef­ur verið skorið niður í grunnþjón­ustu og ýmis stuðning­ur og ráðgjöf við þá sem standa höll­um fæti hef­ur minnkað. Þetta ger­ist á sama tíma og nem­end­um fjölg­ar í skól­un­um. Sum­ir þeirra þurfa á mikl­um stuðningi að halda, en þeim er ekki sinnt sem skyldi,“ seg­ir Aðal­heiður.

„Síðan hef­ur náms­fram­boð verið tak­markað, þannig að námið höfðar til færri nem­enda en áður.“ Hún seg­ir að frá ár­inu 2009 hafi nán­ast eng­in for­falla­kennsla verið í fram­halds­skól­um lands­ins og á síður von á að það breyt­ist á næstu árum.

Þó að það valdi von­brigðum að farið sé enn og aft­ur fram á niður­skurð, þá séu marg­ar góðar til­lög­ur í frum­varp­inu. „Það má ekki líta fram hjá því að mörg ágæt verk­efni eru kynnt í frum­varp­inu, til dæm­is er stuðlað að því að at­vinnu­laus­ir hefji nám, stofna á þró­un­ar­sjóð og koma vinnustaðanámi á lagg­irn­ar. Þetta eru góð verk­efni og þeim fylg­ir fjár­magn, en þau þýða líka aukið álag á skól­ana.“

Sýn­ist þetta verða erfitt áfram

„Mér sýn­ist þetta verða erfitt áfram,“ seg­ir Ingi­björg S Guðmunds­dótt­ir, skóla­meist­ari Kvenna­skól­ans í Reykja­vík. „Ég geri ráð fyr­ir að við þurf­um að halda áfram að stækka náms­hópa og draga úr vali nem­enda. Reynd­ar er komið að þol­mörk­um fyr­ir löngu,“ seg­ir Ingi­björg.

Hún seg­ir að for­ráðamenn fram­halds­skól­anna séu orðnir van­ir sparnaðar­kröf­um, þeir hafi þurft að verða við þeim árum sam­an. Hún seg­ir að auk þess að stækka nem­enda­hópa og minnka val nem­enda, hafi veru­lega hafi dregið úr kaup­um á búnaði og náms­gögn­um í skól­an­um. „Það eru mikl­ar kröf­ur gerðar til skól­anna og við leit­um ein­fald­lega allra leiða til að mæta þeim. En það er ekki af neinu að taka leng­ur.“

Kostnaður við hvern nem­anda í Kvenna­skól­an­um er sá næst­lægsti á land­inu, eða 594 þúsund á ári. Ingi­björg seg­ir marg­ar ástæður vera fyr­ir því. „Við erum með ódýrt hús­næði. Verðið á ársnem­and­an­um er allt of lágt, en okk­ur hef­ur ein­hvern­veg­inn tek­ist að kenna þeim fyr­ir þessa upp­hæð.“

Kennslu­stund­um fækkaði um 300 á viku

„Ég átta mig ekki á því hvað er í gangi, ég geri ráð fyr­ir að um mis­tök sé að ræða og mun leita skýr­inga,“ seg­ir Atli V. Harðar­son skóla­meist­ari Fjöl­brauta­skóla Vest­ur­lands um boðaðan niður­skurð á fjár­veit­ing­um til skól­ans. „Við höf­um þurft að skera veru­lega mikið niður á und­an­förn­um árum,“ seg­ir Atli og nefn­ir sem dæmi að haustið 2008 hafi verið kennd­ar 1300 kennslu­stund­ir á viku í skól­an­um, en nú séu þær rúm­lega eitt þúsund. Nem­enda­fjöldi er þó svipaður. „Við troðum í stof­urn­ar eins og hægt er. Við þurf­um samt að halda uppi sömu þjón­ustu fyr­ir sama hóp fyr­ir minna fé. Auðvitað leiðir þetta af sér lak­ari kennslu og lé­legri tækja­búnað.Til að mynda höf­um við ekk­ert fé af­lögu til tækja­kaupa og hér er margt á síðasta snún­ingi. Það er sárt að geta ekki end­ur­nýjað al­menn­an búnað eins og tölv­ur og miðað við al­menn­ar af­skrift­ar­regl­ur ætti að vera búið að af­skrifa ýms­an búnað sem við not­um í verk­legri kennslu,“ seg­ir Atli. „Á sama tíma og skorið er niður hef­ur launa­kostnaður hækkað. Ég veit ekki til þess að nokk­ur maður trúi því að það sé sparnaður í því að skera niður í mennt­un.“

Eins og að standa fyr­ir fram­an stór­skota­lið

„Við fáum meiri niður­skurð en aðrir sam­bæri­leg­ir skól­ar á land­inu annað árið í röð,“ seg­ir Jón Reyn­ir Sig­ur­vins­son, skóla­meist­ari Mennta­skól­ans á Ísaf­irði. „Í fyrra var niður­skurður hér meiri en í nokkr­um öðrum fram­halds­skóla á land­inu, við feng­um eng­ar aðrar skýr­ing­ar en þær að við þyld­um það.“ Jón seg­ir mik­ils aðhalds hafa verið gætt í rekstri skól­ans síðustu tvö árin og það hafi leitt til þess að nokk­ur af­gang­ur varð af fjár­heim­ild­inni. „Niðurstaðan virðist vera sú að fólki er refsað fyr­ir að hagræða,“ seg­ir Jón.

Hann seg­ir að reiknilík­an sem notað er til að mæla fjárþörf fram­halds­skóla geri ekki ráð fyr­ir þeim aðstæðum sem skól­inn býr við. „Við get­um ekki valið úr nem­end­um og get­um því ekki stýrt inn­rit­un með hagræðingu í huga.“ Jón seg­ist ekki hafa átt von á öðru en niður­skurðar­kröfu, en komið sé að því að ekki sé hægt að hagræða meira. „Nú þurf­um við að fara að for­gangsraða þeim lög­um sem við för­um eft­ir, það er varla hægt að halda uppi lög­bund­inni þjón­ustu. Þetta ger­ir maður þegar það stend­ur stór­skota­lið fyr­ir fram­an mann.“

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert