Fréttaskýring: Framhaldsskólar fá minna

Skólameistarar telja að erfitt sé að halda uppi þeirri kennslu …
Skólameistarar telja að erfitt sé að halda uppi þeirri kennslu sem til er ætlast vegna niðurskurðar í fjárlögum ársins 2012.

Skólameistarar í framhaldsskólum segja erfitt að sjá hvernig verða eigi við kröfum stjórnvalda um niðurskurð í framhaldsskólum landsins enn eitt árið. Komið sé að því að huga þurfi verulega að forgangsröðun, því fjármagnið dugi ekki til að halda uppi lögbundinni þjónustu með færri krónur til umráða og fleiri nemendur á skólabekknum.

Í nýju fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir að draga úr útgjöldum til framhaldsskólanna um tæpar 370 milljónir króna á verðlagi fjárlaga 2011. Samsvarandi upphæð fyrir háskóla landsins er 329,5 milljónir. Þetta samsvarar 2% lækkun frá núverandi fjárlögum, sem er sama aðhaldskrafa og í öðrum málefnaflokkum mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Dugar til að reka einn skóla

Á sama tíma og skorið er niður er gert ráð fyrir nokkurri fjölgun nemenda, en áætlað er að 20.400 nemendur muni stunda nám í framhaldsskólum landsins árið 2012.

„Þegar þessar 370 milljónir eru settar í samhengi við rekstrarkostnað framhaldsskóla, þá væri til dæmis hægt að reka um 300 nemenda skóla í eitt ár fyrir þessa upphæð,“ segir Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara. „Þó að þetta sé í sjálfu sér ekki há tala, þá leggst hún ofan á allan þann niðurskurð sem framhaldsskólarnir hafa þurft að þola í mörg ár.“

Aðalheiður segir að krepputímar í framhaldsskólunum hafi ekki hafist haustið 2008, líkt og í flestum fyrirtækjum og stofnunum, því skólunum hafi verið gert að sýna aðhald mörg undanfarin ár.

Víða lélegur tækjabúnaður

„Við heyrum að tækjabúnaður sé víða orðinn lélegur og það er áhyggjuefni. Rannsókn, sem gerð var á síðasta ári um áhrif efnahagskreppunnar á skólastarfið og starfsumhverfi kennara, sýndi að niðurskurðurinn hefur leikið framhaldsskólana mjög grátt. Námshópar eru orðnir allt of stórir og kennarar eiga í erfiðleikum með að sinna nemendum. Síðan hefur verið skorið niður í grunnþjónustu og ýmis stuðningur og ráðgjöf við þá sem standa höllum fæti hefur minnkað. Þetta gerist á sama tíma og nemendum fjölgar í skólunum. Sumir þeirra þurfa á miklum stuðningi að halda, en þeim er ekki sinnt sem skyldi,“ segir Aðalheiður.

„Síðan hefur námsframboð verið takmarkað, þannig að námið höfðar til færri nemenda en áður.“ Hún segir að frá árinu 2009 hafi nánast engin forfallakennsla verið í framhaldsskólum landsins og á síður von á að það breytist á næstu árum.

Þó að það valdi vonbrigðum að farið sé enn og aftur fram á niðurskurð, þá séu margar góðar tillögur í frumvarpinu. „Það má ekki líta fram hjá því að mörg ágæt verkefni eru kynnt í frumvarpinu, til dæmis er stuðlað að því að atvinnulausir hefji nám, stofna á þróunarsjóð og koma vinnustaðanámi á laggirnar. Þetta eru góð verkefni og þeim fylgir fjármagn, en þau þýða líka aukið álag á skólana.“

Sýnist þetta verða erfitt áfram

„Mér sýnist þetta verða erfitt áfram,“ segir Ingibjörg S Guðmundsdóttir, skólameistari Kvennaskólans í Reykjavík. „Ég geri ráð fyrir að við þurfum að halda áfram að stækka námshópa og draga úr vali nemenda. Reyndar er komið að þolmörkum fyrir löngu,“ segir Ingibjörg.

Hún segir að forráðamenn framhaldsskólanna séu orðnir vanir sparnaðarkröfum, þeir hafi þurft að verða við þeim árum saman. Hún segir að auk þess að stækka nemendahópa og minnka val nemenda, hafi verulega hafi dregið úr kaupum á búnaði og námsgögnum í skólanum. „Það eru miklar kröfur gerðar til skólanna og við leitum einfaldlega allra leiða til að mæta þeim. En það er ekki af neinu að taka lengur.“

Kostnaður við hvern nemanda í Kvennaskólanum er sá næstlægsti á landinu, eða 594 þúsund á ári. Ingibjörg segir margar ástæður vera fyrir því. „Við erum með ódýrt húsnæði. Verðið á ársnemandanum er allt of lágt, en okkur hefur einhvernveginn tekist að kenna þeim fyrir þessa upphæð.“

Kennslustundum fækkaði um 300 á viku

„Ég átta mig ekki á því hvað er í gangi, ég geri ráð fyrir að um mistök sé að ræða og mun leita skýringa,“ segir Atli V. Harðarson skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands um boðaðan niðurskurð á fjárveitingum til skólans. „Við höfum þurft að skera verulega mikið niður á undanförnum árum,“ segir Atli og nefnir sem dæmi að haustið 2008 hafi verið kenndar 1300 kennslustundir á viku í skólanum, en nú séu þær rúmlega eitt þúsund. Nemendafjöldi er þó svipaður. „Við troðum í stofurnar eins og hægt er. Við þurfum samt að halda uppi sömu þjónustu fyrir sama hóp fyrir minna fé. Auðvitað leiðir þetta af sér lakari kennslu og lélegri tækjabúnað.Til að mynda höfum við ekkert fé aflögu til tækjakaupa og hér er margt á síðasta snúningi. Það er sárt að geta ekki endurnýjað almennan búnað eins og tölvur og miðað við almennar afskriftarreglur ætti að vera búið að afskrifa ýmsan búnað sem við notum í verklegri kennslu,“ segir Atli. „Á sama tíma og skorið er niður hefur launakostnaður hækkað. Ég veit ekki til þess að nokkur maður trúi því að það sé sparnaður í því að skera niður í menntun.“

Eins og að standa fyrir framan stórskotalið

„Við fáum meiri niðurskurð en aðrir sambærilegir skólar á landinu annað árið í röð,“ segir Jón Reynir Sigurvinsson, skólameistari Menntaskólans á Ísafirði. „Í fyrra var niðurskurður hér meiri en í nokkrum öðrum framhaldsskóla á landinu, við fengum engar aðrar skýringar en þær að við þyldum það.“ Jón segir mikils aðhalds hafa verið gætt í rekstri skólans síðustu tvö árin og það hafi leitt til þess að nokkur afgangur varð af fjárheimildinni. „Niðurstaðan virðist vera sú að fólki er refsað fyrir að hagræða,“ segir Jón.

Hann segir að reiknilíkan sem notað er til að mæla fjárþörf framhaldsskóla geri ekki ráð fyrir þeim aðstæðum sem skólinn býr við. „Við getum ekki valið úr nemendum og getum því ekki stýrt innritun með hagræðingu í huga.“ Jón segist ekki hafa átt von á öðru en niðurskurðarkröfu, en komið sé að því að ekki sé hægt að hagræða meira. „Nú þurfum við að fara að forgangsraða þeim lögum sem við förum eftir, það er varla hægt að halda uppi lögbundinni þjónustu. Þetta gerir maður þegar það stendur stórskotalið fyrir framan mann.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka