Hvetja veiðimenn til að stunda hóflegar veiðar

mbl.is

SKOTVÍS fagnar ákvörðun ráðherra að heimila rjúpnaveiðar 2011 á 31.000 rjúpum, þó með takmörkunum sé, og beinir þeim tilmælum til veiðimanna að stunda hóflegar veiðar á tímum sem viss ástæða er til að hafa áhyggjur af rjúpnastofninum.

Í tilkynningu frá SKOTVÍS kemur fram að vonir stóðu til að fjöldi veiðidaga yrði óbreyttur og í samræmi við fyrri ákvörðun ráðherra frá 2009 og er ákvörðunin því ekki í takti við væntingar SKOTVÍS, en veiðimenn hafi stundað hóflegar veiðar og verið á pari við veiðiráðgjöf UST undanfarin ár.

Gerir alvarlega athugasemd við ferli sem leiddi til niðurstöðunnar

„SKOTVÍS gerir alvarlegar athugasemdir við það ferli sem leiddi til þessarar niðurstöðu. Skotveiðar sem standa undir 10-12% af árlegum afföllum eru útmálaðar sem megin-stýribreyta í viðkomu stofnsins meðan aðrir stýranlegir áhrifavaldar eru látnir óáreittir og valda ekki bara rjúpnastofninum ómældu tjóni, heldur einnig öðru fuglalífi.

SKOTVÍS gagnrýnir ruglingslega hlutverkaskiptingu milli NÍ, UST og umhverfisráðuneytis í ákvörðunarferlinu og þá sérstaklega afskipti NÍ af veiðistjórnunarþættinum og það ákvörðunarvald ráðherra sem gerir ákvörðunina pólitíska í eðli sínu og ekki til þess fallna  að skapa traust á stjórnvöldum um að vísindaleg vinnubrögð séu viðhöfð. SKOTVÍS hefur miklar áhyggjur af því hvernig staðið verði að veiðistjórnun á villtum dýrastofnum um ókomna framtíð, en vill leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að stuðla að nauðsynlegum breytingum, þ.a. komandi kynslóðir eigi þess einnig kost að stunda skynsamlegar skotveiðar," segir enn fremur í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert