Samtals hafa 6.740 manns skráð sig á vefsíðuna Skynsemi.is þar sem safnað er undirskriftum fyrir því að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu verði lögð til hliðar.
Þær ástæður sem gefnar eru upp fyrir því á síðunni að leggja eigi umsóknina til hliðar eru þær að ESB hafi breyst síðan hún var send og að óvissa sé um framtíð sambandsins og myntbandalags þess. Þá sé ferlið kostnaðarsamt auk þess sem skoðanakannanir sýni vaxandi andstöðu við aðild.
„Því fyrr sem Alþingi leggur þessa umsókn til hliðar því betra. Það útilokar ekki að taka upp aðildarviðræður við Evrópusambandið síðar, þegar aðstæður og vilji þjóðarinnar bjóða upp á það,“ segir ennfremur á síðunni.
Undirskriftasöfnunin hófst í september síðastliðnum.