„Þetta viðhorf er með öllu óskiljanlegt. Tók ég oft slaginn við unga sjálfstæðismenn um málið á landsfundum Sjálfstæðisflokksins. Þeir sætta sig ekki við niðurstöðu þeirrar rimmu og sitja eftir með sárt enni. Að þeir haldi áfram að væla eftir að hús utan um tónlistarsal er risið er með ólíkindum,“ segir Björn Bjarnason, fyrrum dómsmálaráðherra, á heimasíðu sinni í kvöld. Gagnrýnir hann þar harðlega andstöðu Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) við tónlistarhúsið Hörpu og ályktun þar sem þeir fagna hugsanlegu verkfalli sinfóníuhljómsveitarinnar.
„Menn mega hafa þá skoðun sem þeim sýnist á stærð umgerðarinnar um tónlistarsalinn eða frágangi ytra byrðis hans. Að láta deilur sem ávallt fylgja stórhuga framkvæmdum beinast að Sinfóníuhljómsveit Íslands sýnir að ungir sjálfstæðismenn eru hreinlega enn úti að aka í þessu máli. Haldi þeir fast í þessa óvild sína í garð fullkomins tónlistarsalar á Íslandi verður Harpa meðal annars minnisvarði um sérviskulega þráhyggju ungra sjálfstæðismanna sem einkennist af ósanngjarnri óvild.
Ráði menn sjálfir orrustuvelli sínum í stjórnmálabaráttu eiga þeir að vanda valið. Ungir sjálfstæðismenn sýna ekki mikla fyrirhyggju í þessu vali með því að ráðast á Sinfóníuhljómsveit Íslands eða tónlistarsalinn í Hörpu. Þeir eru dæmdir til að tapa þessari orrustu. Að falla fyrir málstaðinn er göfugt markmið, að falla fyrir málstað sem þegar er tapaður er stórundarlegt markmið,“ segir Björn.