Mjög hefur dregið úr hreyfingu barna og mataræði þeirra er oft einhæft, segir Tryggvi Helgason barnalæknir í nýjasta hefti Læknablaðsins en hann er meðlimur meðferðarteymis sem tekið hefur til starfa á Barnaspítalanum og beitir fjölskyldumiðaðri meðferð til þess að takast á við offitu barna.
„Það munar um það hvort börn ganga eða hjóla í skólann eða eru keyrð,“ segir Tryggvi. „Mataræðið hefur gjörbreyst, næringarlítill en orkumikill matur er orðinn mun meira áberandi, sem þrýstir þjóðinni í vaxandi offitu.“
Tryggvi segir það einföldun að kenna foreldrum um offitu barna en meðferðin gegn vandanum snúist m.a. um að fjölskyldan temji sér nýjar lífsvenjur þannig að börnin þyngist ekki meira.
„Við setjum ekki börn í megrun. Við reynum að breyta lífsstíl þeirra með því að styrkja einstaklingana í eigin sjálfsmynd, kenna þeim hollar matarvenjur og benda þeim á hvar er hægt að breyta,“ segir Tryggvi.
Hægt er að lesa viðtalið við Tryggva á vef Læknablaðsins.