Um tuttugu skjálftar voru stærri en tvö sig og þar af nokkrir stærri en þrjú stig í Mýrdalsjökli í nótt. Er þetta snarpasta hrinan í Mýrdalsjökli frá því virkni tók að aukast í jöklinum í sumar, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.
Upp úr klukkan 2:50 hófst snörp skjálftahrina í Mýrdalsjökli og rúmri klukkustund síðar varð önnur heldur minni og þriðja hrinan en minni fylgdi fljótlega í kjölfarið. Eftir það hafa stakir skjálftar mælst en tíðni þeirra hefur minkað verulega. Skjálftahrinurnar voru í norð-austanverðri Kötluöskjunni rétt sunnan við Austmannsbungu.
Enginn órói fylgdi þessum hrinum. Aukin virkni hefur verið í Mýrdalsjökli undanfarna mánuði en þetta er snarpasta hrinan hingað til. Ekki eru vísbendingar um að meiri virkni fylgi í kjölfarið að svo stöddu en vel verður fylgst með virkni í Mýrdalsjökli í framhaldinu, samkvæmt upplýsingum frá jarðskjálftasviði Veðurstofunnar.