Hæstiréttur hefur dæmt þrítuga konu í tveggja ára fangelsi en hún játaði fyrir dómi að hafa dregið sér og notað heimildarlaust í eigin þágu samtals 335.768 evrur, rúmar fimmtíu milljónir króna, í starfi hjá sendiráði Íslands í Vín og síðar sem stjórnarráðsfulltrúi og starfsmaður á rekstrar- og þjónustusviði utanríkisráðuneytisins. 22 mánuðir eru skilorðsbundnir. Þá var henni gert að greiða utanríkisráðuneytinu féð til baka.
Konan millifærði í 193 skipti af reikningi í eigu íslenska sendiráðsins í Vínarborg, sem hún hafði prókúru fyrir, yfir á eigin bankareikning. Þá lét hún hjá líða að tilkynna að hún væri enn að fá staðaruppbót með sjálfvirkri millifærslu af sama reikningi í eigu íslenska sendiráðsins í Vínarborg og inn á eigin bankareikning í alls 8 skipti. Fjárdrátturinn fór fram á tímabilinu 2. mars til 6. október 2009.
Í vottorði sérfræðilæknis á geðdeild Landspítala, sem var á meðal gagna málsins, kemur fram að konan hafi lýst mikilli vanlíðan, sektarkennd og erfiðleikum vegna spilafíknar. Þá hafi hún orðið fyrir miklum áföllum þegar hún var 19 ára en þá missti hún kærasta sinn af slysförum og vinkonu vegna voðaverks.
Héraðsdómur leit til þessa aðstæðna konunnar þegar henni var ákvörðuð refsing, þess að hún hafi leitað sér hjálpar vegna spilafíknar og þess að hún eigi ung börn. Því var dómurinn að mestu bundinn skilorði.