Haft er eftir Svandísi Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, á fréttavefnum Ips.com að hún efist um að hvalveiðar við núverandi aðstæður geti talist sjálfbærar, bæði með tilliti til umhverfisins og út frá efnahagslegum sjónarmiðum. „Erlendir markaðir fyrir hvalkjöt eru fáir og mjög litlir sem þýðir að mögulegar tekjur af hvalveiðum eru óverulegar í hinu stærra efnahagslega samhengi.“
Í fréttinni er fjallað um þær diplómatísku aðgerðir sem bandarísk stjórnvöld hafa tilkynnt að þau ætli að grípa til gagnvart Íslendingum vegna hvalveiða þeirra. Haft er eftir Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að Bandaríkjamenn hafi engin lagaleg eða vísindaleg rök fyrir því að beita sér gegn veiðum Íslendinga og bent á að ráðherrarnir tveir séu ekki samstiga í málinu.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, tekur undir með Jóni um að rök Bandaríkjamanna haldi ekki vatni. Hann segir þó að sé horft á málið með mjög ströngum hætti sé hægt að halda því fram að veiðar á langreyði séu ekki sjálfbærar ef ekki finnist markaðir fyrir afurðirnar af þeim. Engin rök séu hins vegar fyrir því að veiðar Íslendinga á hrefnu séu ekki sjálfbærar.