HÍ í hópi 300 bestu háskólanna

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. mbl.is/Ómar

Háskóli Íslands er kominn í hóp 300 bestu háskóla í heiminum að mati Times Higher Education Supplement, sem er annar af tveimur helstu matslistum á þessu sviði.

Besti háskólinn er að mati stofnunarinnar California Institute of Technology í Bandaríkjunum. Í öðru sæti er Harvard-háskóli í Massachusetts og Stanford-háskóli í Kalíforníu er í þriðja sæti. Oxford-háskóli í Bretlandi er í 4. sæti. 

Samkvæmt lista Times Higher Education Supplement er Háskóli Íslands í sæti 276-300 ásamt 24 öðrum háskólum en alls eru 400 háskólar á listanum. Rúmlega 17 þúsund háskólar eru til í heiminum. 

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, segir í tilkynningu að þetta mat sé mikil gleðitíðindi fyrir skólann á hundraðasta afmælisári hans.  

„Það er í raun ótrúlegt að 330 þúsund manna samfélag hafi byggt upp vísinda- og menntastofnun sem nær þessum árangri.  Hin alþjóðlega samkeppni er geysihörð.  Við hjá Háskólanum erum að vinna eftir mjög metnaðarfullri stefnu um að koma skólanum í fremstu röð, þannig að hann geti sem best þjónað íslensku samfélagi.  Vísindastarfi hefur fleygt fram á undanförnum árum, bæði að magni og gæðum. Tilvitnunum vísindamanna annars staðar í heiminum í verk vísindamanna við Háskóla Íslands hefur fjölgað um meira en 100% á 5 árum,“ segir Kristín í tilkynningunni.

Þrír sænskir meðal 100 bestu

Langflestir háskólarnir í hópi þeirra 100 bestu eru bandarískir og breskir. Fjórir norrænir háskólar komast þó á þennan lista, þrír sænskir og einn finnskur.

Karolinska Institutet er í 32. sæti,  háskólinn í Lundi er í 80. sæti og Uppsalaháskóli í 87. sæti. Háskólinn í Helsinki er í 91. sæti. Þá er Árósaháskóli í Danmörku í 125. sæti og Kaupmannahafnarháskóli í 135. sæti.  Óslóarháskóli er í 181. sæti.

Listi Times Higher Education Supplement

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert