Hönnun á nýrri Vestmannaeyjaferju sem hentar Landeyjahöfn tekur um þrjú ár og kostnaður er áætlaður 4-4,5 milljarðar króna, að sögn Hreins Haraldssonar vegamálastjóra.
Eyjamenn hafa fengið nóg af samgöngutruflunum milli lands og Eyja og vilja sitja við sama borð og aðrir landsmenn.
Í umfjöllun um samgöngumál Vestmannaeyja í Morgunblaðinu í dag segir, að ljóst sé að Herjólfur henti illa til siglinga í Landeyjahöfn og í staðinn vilja Eyjamenn fá Breiðafjarðarferjuna Baldur eða sambærilegt skip þar til nýtt skip verður smíðað. „Við höfum engan tíma til að bíða,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Eyjum.