Innanríkisráðherra hyggst á haustþingi leggja fram frumvarp þess eðlis að sjálfkrafa skráning barns í trúfélag móður við fæðingu verður afnumin. Er þetta í samræmi við álit Jafnréttisstofu frá desember 2008 um að núverandi fyrirkomulag brjóti í bága við jafnréttislög.
Málið var nokkuð til umfjöllunar í mars 2009 en þá spurði Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna, Rögnu Árnadóttur, þáverandi dómsmálaráðherra, út í málið. Árni sagðist þá telja að um mikilvægt jafnréttis- og mannréttindamál væri að ræða og vildi hann að farið yrði eftir áliti Jafnréttisstofu, þ.e. að að samþykki beggja forsjáraðila þurfi til, ef þeir eru fleiri en einn, og að börn séu ekki sjálfkrafa skráð í trúfélög heldur sé það ákvörðun forsjáraðilanna, hvort sem þeir eru einn eða fleiri, hvernig þeim málum er háttað.
Ragna sagðist geta verið því sammála að svo fortakslaus regla sem finna má í lögum um trúfélög geti verið óheppileg, ekki síst ef hún þyki brjóta í bága við jafnréttislög. Í kjölfarið sagðist hún ætla að beita sér fyrir því að skráningin yrði endurskoðuð.
Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu fór þessi skoðun fram og skilar hún sér í því frumvarpi um breytingar á lögum um trúfélög sem áður var nefnt.
Í ræðu Rögnu á þingi rak hún sögu skráningarinnar. Nefndi hún að árið 1886 voru sett lög sem lögðu það á presta þjóðkirkjunnar að annast skráningu allra barna og nafna þeirra í kirkjubækur. Árið 1956 var svo tekið upp nýtt fyrirkomulag almannaskráninga með lögum um þjóðskrá og almannaskráningu. Árið 1975 voru að endingu sett lög um trúfélög sem tóku upp það fyrirkomulag sem nú ríkir.
Í lögum um trúfélög, nr. 108/1999, segir í 2. mgr. 8. gr. að barn skuli frá fæðingu talið heyra til sama skráða trúfélags og móðir þess.
Í áliti Ingibjargar Elíasdóttur, lögfræðings Jafnréttisstofu, um málið kemur fram að ekki sé að sjá að neinir hagsmunir felist í því, hvorki fyrir nýfætt barn né aðra, að það sé sjálfkrafa skráð í trúfélag. „Þetta snýst ekki um rétt móðurinnar eða rétt föðurins til að barnið sé skráð með öðru hvoru þeirra í trúfélag. Hagsmunir barnsins eiga alltaf að vera hafðir að leiðarljósi fram yfir hagsmuni foreldranna, og það er erfitt að sjá að sé hagsmunamál fyrir barnið að vera skráð í eitthvert tiltekið trúfélag við fæðingu.“
Í umfjöllun Morgunblaðsins um málið í mars 2009 var rætt við Bjarna Jónsson, varaformann Siðmenntar – félags siðrænna húmanista á Íslandi. „Sjálfkrafa skráning í trúfélög hefur verið líkt við skráningu barna í stjórnmálaflokka. Skoðun Siðmenntar er sú að það eigi ekki að vera á valdi foreldra að skrá börn sín í trúarleg eða veraldleg lífsskoðunarfélög. „Þetta er náttúrlega bara hluti af stærra máli,“ sagði Bjarni. „Segja má að sá háttur að skrá menn sjálfkrafa í trúfélag standi gegn mannréttindum.“