Vantar svör um stefnumörkun

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. Ernir Eyjólfsson

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands lýsir vonbrigðum sínum með þá stefnu sem liggur til grundvallar nýju fjárlagafrumvarpi og segir það byggja á veikum forsendum um efnahagsbata sem því miður sé lítil innistæða fyrir.

Ekkert bóli á endurskoðaðri efnahagsstefnu þar sem tekist sé á við brýn úrlausnarefni á borð við fjárfestingaráætlun, hagvaxtaráætlun og stefnu stjórnvalda í vaxta-, gengis- og verðlagsmálum. Á sama tíma og draga eigi úr framlögum til viðhalds- og fjárfestinga eigi að fjölga störfum um 7.000 með auknum framkvæmdum.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir fjárlagafrumvarpið eitt af höfuðverkefnum ríkisstjórnarinnar, enda myndi það ramma um stefnu hennar fyrir næsta ár. Lítið sé þó hægt að lesa úr núverandi frumvarpi um áætlanir ríkisstjórnarinnar.

„Enn einu sinni sjáum við að það er að meginhluta verið að ná tökum á ríkisfjármálunum með tekjuhliðinni. Og á sama tíma örlar ekkert á því sem maður hefði haldið að væru í dag brýnustu úrlausnarefnin. Við erum ekki farin að sjá endurskoðaða efnahagsstefnu í ljósi þess að AGS-prógrammið er búið. Við erum ekki að sjá þá fjárfestingaráætlun sem átti að vera hér tilbúin í lok maí. Við erum ekki að sjá hvert á að vera fyrirkomulag peningastefnunnar og gengisstefnunnar, sem þó eru örlagavaldar varðandi verðbólgu og vexti,“ segir Gylfi.

Hann kallar eftir skýrum svörum. „Það eru engin svör að sjá í þessu frumvarpi. Og engin svör að finna í stefnuræðum hvorki forsætisráðherra né fjármálaráðherra. Og þetta eru grundvallaratriði sem við gengum frá í maí að ættu að liggja fyrir í júní, en liggja ekki fyrir enn.

Atvinnulausir bera ekki ábyrgð á því að störfin hurfu

Meðal þess sem miðstjórn Alþýðusambandsins gagnrýnir í frumvarpinu eru áform um að elli- og örorkulífeyrisþegar fái um 5.500 króna hækkun á næsta ári á meðan lægstu laun hækki um 11.000 krónur. Enn fremur að til standi að fella þá sem hafa verið atvinnulausir í þrjú ár af bótum í þrjá mánuði.

„Hugmyndin í frumvarpinu gengur út á að eftir þrjú ár á fólk að missa bótaréttinn í þrjá mánuði og væntanlega þá fara til sveitarfélaganna á grundvelli laga um félagslega aðstoð,“ segir Gylfi. Sú aðstoð sé þó ýmsum skilyrðum háð og fólk eigi t.d. ekki rétt til bóta hafi makinn vinnu eða ef það á einhverja eign í húsnæði eða bifreið.

„Fjölskyldur ráða ekki við það að hafa bara eina fyrirvinnu. Þannig að það er verið að setja fólk á þriggja mánaða vergang og það geti svo komið aftur að þeim tíma liðnum. Þá þeir sem lifa það af,“ segir Gylfi.

Hann segir þetta sveltistefnu sem byggi á þeirri hugmynd að fólk sem hafi verið atvinnulaust í þrjú ár nenni ekki að vinna og því eigi að reyna að þvinga fólk í vinnu. „Þetta er hugsunarháttur sem ég skil ekki,“ segir Gylfi. „Það hurfu hérna 20 þúsund störf af vinnumarkaðnum. Það er ekki á ábyrgð þeirra sem misstu vinnuna að störfin hurfu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert