Vilja rannsaka þingmenn og búsáhaldabyltinguna

mbl.is/hag

Þrír þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að sérstök rannsóknarnefnd rannsaki hvort athafnir einstakra þingmanna á tímabilinu í tengslum við svokallaða búsáhaldabyltingu hafi brotið í bága við ákvæði laga.

Samkvæmt tillögunni, sem Gunnar Bragi Sveinsson, Vigdís Hauksdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson leggja fram, á rannsóknarnefndin að leggja mat á hvort einstakir alþingismenn hafi fylgt þeim lagareglum sem um störf þeirra gilda, brotið starfsskyldur sínar, gerst sekir um mistök eða vanrækslu í starfi eða brotið gegn refsiákvæðum laga.

Þá á nefndin að gera ráðstafanir til þess að hlutaðeigandi yfirvöld fjalli um mál þar sem grunur vaknar við rannsókn nefndarinnar um refsiverða háttsemi eða brot á starfsskyldum og gera jafnframt grein fyrir þeim málum í skýrslu til Alþingis.

Í greinargerð er vísað til ummæla, sem birtust í fjölmiðlum og víðar og segir að vart verði hjá því komist að draga þær ályktanir af þeim, að stórkostleg hætta hafi skapast í búsáhaldabyltingunni og að ákveðnir alþingismenn hafi veitt liðsinni sitt eða hvatt aðra til verka sem sköpuðu mikla hættu. Mikilvægt sé að varpað verði ljósi á framangreinda atburði sem lið í því að skapa á ný traust á Alþingi og stjórnvöldum.

Þingsályktunartillagan

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert