Vill viðskiptaþvinganir gegn Íslandi

„Eins vingjarnlegir og Íslendingar kunna að líta út fyrir að vera þá virðast þeir hafa þá afstöðu til náttúruauðlinda sem grimmdarleg og eigingjörn. Andstaða þeirra við að hætta að drepa hvali er bestþekkta dæmið um þetta,“ segir breski þingmaðurinn Barry Sheerman, í pistli á vefsíðunni Politics.co.uk í dag.

Sheerman, sem situr á breska þinginu fyrir Verkamannaflokkinn, segist hafa verið staddur hér á landi nýverið í þeim tilgangi að sjá norðurljósin. Hann segir að sér hafi verið tekið vel af þeim Íslendingum sem hann hafi hitt en fer síðan hörðum orðum um  íslensku elítuna sem hafi kostað Breta háar fjárhæðir. Í stað þess að greiða þær til baka skýli þessir aðilar sér á bak við þjóðaratkvæðagreiðslur þar sem Íslendingar hafi verið spurðir að því hvort þeir vildu greiða skuldir sínar.

„Það er nógu slæmt að vera boðið þetta "gómsæti" á sérhverju veitingahúsi og heyra það réttlætt á þeim forsendum að um sé að ræða fátækt land í miðju Atlantshafinu sem þurfi að halda áfram að veiða hvali til þess að lifa af,“ segir Sheerman. „Alþjóðasamfélagið ætti sannarlega að grípa núna til harðra aðgerða í því skyni að koma vitinu fyrir Íslendinga og koma á hörðum viðskiptahindrunum þar til þeir breyta hegðun sinni og sýna að hægt sé að treysta þeim.“

Pistill Barrys Sheerman

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert