Auka skuli hlut ljóðakennslu

Fyrir fáeinum árum kviknaði sú hugmynd að gefa Skólaljóð út …
Fyrir fáeinum árum kviknaði sú hugmynd að gefa Skólaljóð út á ný, en bókin hefur verið ófáanleg í rúma tvo áratugi. mbl.is

Lögð hefur verið fram þingsályktunartillaga á Alþingi þess efnis að mennta- og menningarmálaráðherra verði falið að vinna að því að auka hlut ljóðakennslu og skólasöngs í námskrá grunnskóla og framhaldsskóla. Þingmenn úr Sjálfstæðisflokki, Samfylkingu og Framsóknarflokki standa að tillögunni.

Flutningsmaður tillögunnar er Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokks, en með honum meðal annars Ólína Þorvarðardóttir og Róbert Marshall úr Samfylkingu. Í greinargerð með tillögunni segir að ljóðakennsla hafi reynst mörgum sem traustur lífsförunautur. „Fátt er eins brothætt og orð og því skiptir höfuðmáli fyrir notkun íslenskrar tungu að ræktuð sé tilfinning fyrir myndauðgi tungunnar og fátt styrkir þann þátt betur en ljóðalestur, lestur Íslendingasagna og lestur vel skrifaðrar bókar. Styrkur ljóðanna í þessu efni er hins vegar nákvæmni þeirra og hnitmiðuð orðanotkun sem kallar á sjálfstæða hugsun og mat lesandans.“

Hvað varðar skólasönginn segir í greinargerð, að mörg ljóð, ekki síst eldri ljóð, eigi kjól sem heitir lag „og ef vel tekst til spretta ljóð og lag eins og eineggja tvíburar“. Þá segir að samsöngur af öllu tagi sé þroskandi og mikilvægur félagslegur þáttur. Þá skemmi ekki fyrir að hann sé að öllu jöfnu mjög skemmtilegur þáttur hins daglega lífs bæði hversdags og á góðum stundum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka