Frumvarp nefndar um eignarhald á fjölmiðlum gæti haft áhrif á 365 miðla – verði það að lögum – ef tekið er mið af þeim viðmiðum sem koma fram í greinargerð með frumvarpinu.
„Það er ekkert útilokað, en þetta er ekkert sérstaklega hannað þeim til höfuðs. En það er alveg ljóst að þeir eru gríðarlega stórir á ákveðnum fjölmiðlamörkuðum,“ segir Karl Axelsson hæstaréttarlögmaður, sem fór fyrir nefndinni. Áætlað er að frumvarpið verði lagt fyrir Alþingi á haustþingi.
Í fréttaskýringu um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Karl annars, að erfitt sé að lesa út úr frumvarpinu áhrif á fjölmiðlamarkaðinn enda sé hann á fleygiferð og ekki vitað hvernig landslagið líti út þegar og ef frumvarpið verður að lögum í vetur. „En eins og verið hefur um árabil, og alþjóðlegar mælingar sýna, er mjög óheppileg samþjöppun á íslenskum fjölmiðlamarkaði og það er ástand sem hefur verið til margra ára.“