Opnum prófkjörum verði hætt

Frá flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar.
Frá flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar.

Opnum prófkjörum verður hætt í Samfylkingunni ef tillaga um reglur um aðferðir við val á framboðslista verður samþykkt á landsfundi flokksins. Umfangsmiklar tillögur um grundvallarendurskipulagningu flokksstarfsins verða lagðar fram á landsfundinum sem haldinn verður dagana 21.-23. október.

Í tilkynningu frá Samfylkingunni segir að tekið sé á öllum lykilþáttum í flokksstarfinu í tillögunum.  Þær stuðli að auknum áhrifum flokksmanna með virkara lýðræði í flokknum, öflugra málefnastarfi, sterkari og áhrifameiri aðildarfélögum, skilvirkara flokksskipulagi og vinnubrögðum, virkari tengslum flokksforystu og félagsmanna og auknu samtali og samráði Samfylkingarfólks í þéttbýli og á landsbyggðinni.

Eru tillögurnar afrakstur eins og hálfs árs umbótastarfs innan Samfylkingarinnar sem hófst í kjölfar útkomu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis í apríl 2010 og tók vinnuferlið m.a. mið af niðurstöðum skýrslunnar. Flokkurinn skipaði eigin umbótanefnd sem skilaði í desember 2010 ítarlegri greiningu og umbótatillögum sem ræddar voru á fundum í aðildarfélögum um allt land.

Fyrir landsfundinum liggja m.a. tillögur um skipan þriggja manna sátta- og siðanefndar Samfylkingarinnar, tillaga að siðareglum sem ráðherrum, þingmönnum, sveitarstjórnarfulltrúum og öðrum sem starfa í nafni Samfylkingarinnar beri að hafa í heiðri í störfum sínu og tillaga að skuldbindandi reglum um aðferðir við val á framboðslista. Fela þær meðal annars í sér að opnum prófkjörum verði hætt. Þá er tillaga um skýrari reglur um fjármál flokksins og frambjóðenda hans.

Merki Samfylkingarinnar.
Merki Samfylkingarinnar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert