Slett úr klaufunum fyrir sjúkrahúsvistina

mbl.is/Ernir

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði nýverið afskipti af karlmanni á besta aldri sem var að halda upp á það að hann væri að fara leggjast inn á sjúkrahús. Maðurinn býr í fjölbýlishúsi og voru nágrannarnir ósáttir við hávaðann og lætin frá gleðskapnum.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að talsvert sé kvartað undan hávaða að næturlagi frá gleðskap í heimahúsum á höfuðborgarsvæðinu. Slíkar tilkynningar berist í hverri viku.

Lögreglan segir að tilefni veisluhalda séu misjöfn en þó verði að teljast sjaldgæft að menn haldi sérstaklega upp á þann áfanga að þeir séu að fara að leggjast inn á spítala til að gangast undir aðgerð.

Sú hafi þó verið raunin á dögunum þegar lögreglan hafi verið kölluð að fjölbýlishúsi í umdæminu. Í einni íbúðinni stóð yfir fjörugt samkvæmi og var hávaðinn eftir því.

Lögreglan segir að húsráðandi, karl á besta aldri, hafi komið til dyra þegar bankað hafi verið upp á og verið nokkuð undrandi á þessari heimsókn laganna varða. Sér til málsbóta sagðist maðurinn vera á leið í aðgerð á spítala og nú væru síðustu forvöð að sletta ærlega úr klaufunum því næstu vikurnar myndi hann ekkert komast á djammið, eins og hann orðaði það.

Fram kemur í tilkynningunni að lögreglumennirnir hafi hlustað skilningsríkir á manninn en bentu honum jafnframt á að hann yrði samt að taka tillit til nágranna sinna. Maðurinn féllst á það og var honum síðan óskað góðs bata áður en farið var af staðnum en þá var jafnframt komin ró yfir partígestina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert