Farþegum Strætós bs. hefur fjölgað um 16,5 prósent á fyrstu níu mánuðum þessa árs miðað við sama tímabil í fyrra samkvæmt mælingu fyrirtækisins. Er gert ráð fyrir að fjöldi farþega nái níu milljónum á þessu ári. Er það einni milljón meira en í fyrra. Mælingar Strætó á fjölda farþega byggja á farmiðasölu.
Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að það sem af er þessu ári hafi mestur fjöldi farþega verið í marsmánuði. Þá voru strætisvagnafarþegar tæplega ein milljón. Fjöldinn í september var um 850 þúsund, í ágúst um 857 þúsund en fæstir nýttu sér strætisvagna í júlí á árinu, eða um 517 þúsund.
Þeir voru þó töluvert fleiri þá en í júlímánuði í fyrra er um 408 þúsund ferðuðust með strætó. Á fyrstu níu mánuðum þessa árs höfðu um 6,7 milljónir manns ferðast með strætisvögnum Strætó bs. Á sama tímabili 2010 var fjöldinn nærri 5,8 milljónir. Fjölgunin milli ára er því tæplega ein milljón strætisvagnafarþegar.